148. löggjafarþing — 33. fundur,  5. mars 2018.

kjör öryrkja.

[15:08]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég held nú samt að meiri hluti hv. þingmanna sé alveg sammála um að það er mikil þörf á kerfisbreytingu þegar kemur að almannatryggingum og greiðslum til örorkulífeyrisþega. Erum við ekki sammála um að það er mikilvægt að við greinum orsakir þess að öryrkjum hefur fjölgað og við grípum inn í með einhverjum hætti? Eða ætlum við bara að horfa á þá þróun án þess að aðhafast? Erum við ekki sammála um að það er mikilvægt að skoða af hverju nýja kostnaðarþátttökukerfið, sem við vorum öll sammála um þegar við samþykktum það á sínum tíma, skilar sér ekki sem skyldi til eldri borgara og öryrkja?

Við vorum öll sammála um, og samþykktum það í fjárlögum, að setja frá og með miðju yfirstandandi ári hálfan milljarð í að greiða niður tannlækningar öryrkja og aldraðra, sem er búin að vera algjör skömm að hversu langan tíma hefur tekið að greiða niður.

Ég held, hv. þingmaður, að við eigum að taka hér höndum saman um það hvernig við getum náð fram góðum breytingum á þessu kerfi og tryggt þannig mannsæmandi kjör, gagnsærra og skilvirkara kerfi, en líka gert þær breytingar sem við þurfum að gera til þess að grípa fyrr inn í áður en fólk fer á örorkulífeyri. (IngS: Byrjum kannski á því að afnema …)