148. löggjafarþing — 33. fundur,  5. mars 2018.

hæfi dómara í Landsrétti.

[15:16]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegi forseti. Eins og áður hefur komið fram hefur umboðsmaður Alþingis sent stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd bréf um athugun sína á máli sem nefndin hefur haft til meðferðar um ákvarðanir dómsmálaráðherra og verklag við vinnslu tillögu til Alþingis um skipun dómara í Landsrétt. Í bréfi sínu áréttar umboðsmaður að hann líti svo á að dómar Hæstaréttar, vegna kæru tveggja umsækjenda sem ekki fengu skipun í Landsrétt, hafi upplýst með fullnægjandi hætti öll helstu málsatvik um ákvarðanir og verklag ráðherra við skipun dómara í Landsrétt. Því sé ekki tilefni til þess að hann eigi sjálfur frumkvæði að því að rannsaka málið nánar — enda fullupplýst.

Endanleg niðurstaða liggur fyrir í því hvernig ráðherra hagaði sér við skipun dómara í Landsrétt. Það er ekki lengur til meðferðar hjá dómstólum þessa lands, svo að því sé haldið til haga. Dómur hefur fallið hjá æðsta dómstóli þessa lands.

Við vitum einnig að dómarar Hæstaréttar komust að þeirri niðurstöðu að rannsókn hæstv. dómsmálaráðherra hefði ekki verið fullnægjandi til að upplýsa málið og að hæstv. dómsmálaráðherra hefði brotið gegn 10. gr. stjórnsýslulaga af þeim sökum. Efasemdir um hæfi þeirra dómara sem skipaðir voru þvert á álit dómnefndarinnar munu plaga Landsrétt næstu árin þar sem augljóst er að dæmi Hæstiréttur viðkomandi dómara ekki vanhæfa mun Mannréttindadómstóll Evrópu að öllum líkindum gera það.

Umboðsmaður beinir einnig mjög athyglisverðri ábendingu til nefndarinnar, nefnilega þeirri að þó að 20. gr. laga um Stjórnarráðið, þess efnis að ráðherra beri að leita ráðgjafar hjá ráðuneyti sínu við ákvarðanatöku og að ráðuneyti sé skylt að veita slíka ráðgjöf, að það hafi verið uppfyllt af hálfu sérfræðinga ráðuneytisins, megi draga þá ályktun af dómi Hæstaréttar að ráðherra hafi ekki fylgt þessu ákvæði þar sem ráðgjöfinni er ætlað að tryggja að ráðherra fylgi réttmætisreglunni við allar ákvarðanir sínar og að þær séu byggðar á málefnalegum sjónarmiðum og lögmætum sem taka mið af opinberum hagsmunum sem um ræðir hverju sinni.

Ég spyr hæstv. forsætisráðherra: Hvernig hyggst hún bregðast við fyrirséðri réttaróvissu í dómskerfinu næstu árin? Ég endurtek þetta í ljósi þess að fullnægjandi niðurstaða liggur fyrir. Hyggst hæstv. ráðherra (Forseti hringir.) bregðast við þeirri augljósu niðurstöðu að hæstv. dómsmálaráðherra hafi ekki fylgt réttmætisreglunni og þar með brotið gegn 20. gr. laga um Stjórnarráðið við skipan í Landsrétt og þá hvernig?