148. löggjafarþing — 33. fundur,  5. mars 2018.

biðlistar á Vog.

[15:25]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Þarna er um að ræða gríðarlega mikilvæga þjónustu sem hefur sannarlega sýnt gildi sitt um áratugaskeið. Ég vil segja það fyrst í svari mínu að ég hef miklar mætur á þeirri starfsemi sem fer fram á vegum SÁÁ.

Okkur er hins vegar nokkur vandi á höndum í mati á biðlistum eftir þeirri þjónustu sem þarna er veitt vegna þess að þeir myndast ekki eftir faglegt mat. Biðlistar eftir meðferð verða í raun til við að einstaklingur skráir sig með ósk eftir að komast að. Það er ólíkt öðrum biðlistum í heilbrigðiskerfinu sem verða til við faglegt mat lækna sem óska eftir því að viðkomandi komist að í tiltekinni þjónustu.

Af þeim sökum eru biðlistar þarna ósambærilegir við aðra biðlista í heilbrigðiskerfinu. Ég vil segja það hér vegna þess að ég tel afar mikilvægt, af því að ég skynja þann undirtón sem er í fyrirspurn hv. þingmanns, að sanngirni sé gætt í þessari umræðu.

Ég hef áður verið til svara varðandi þjónustu SÁÁ. Ég tel afar mikilvægt að það sé skýrt að sú þjónusta sé byggð á faglegum grunni, að hún uppfylli faglegar kröfur og að árangur sé metinn, rétt eins og í annarri heilbrigðisþjónustu. Við þurfum að gera upp við okkur þegar á heildina er litið í íslensku heilbrigðiskerfi hvaða þjónustu við viljum festa kaup á fyrir almannafé. Það er það sem ný skýrsla Ríkisendurskoðunar brýnir okkur í að gera. (Forseti hringir.) Það gildir líka um þessa þjónustu.