148. löggjafarþing — 33. fundur,  5. mars 2018.

gjaldtaka í ferðaþjónustu.

[15:30]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Herra forseti. Mig langar að beina fyrirspurn minni til hæstv. ferðamálaráðherra varðandi gjaldtöku í greininni, stefnu stjórnvalda í gjaldtöku þar og kannski ekki hvað síst framferði einokunarfyrirtækis í eigu ríkisins, Isavia, í slíkum málefnum að undanförnu.

Verkleysi ríkisstjórnar Vinstri grænna og Sjálfstæðisflokks hefur verið nokkuð til umræðu hér. Hins vegar hefur það verið svo að málefni ferðaþjónustunnar hafa verið á borði ráðherra Sjálfstæðisflokksins undanfarin fimm ár án þess að tekist hafi að ná þar niðurstöðu. Raunar hefur farið svo að hver sú hugmynd sem komið hefur fram, hvort sem hún heitir náttúrupassi, komugjöld, uppfærsla ferðaþjónustunnar í efra þrep virðisaukaskatts, hefur verið skotin jafnharðan niður, af Sjálfstæðismönnum sjálfum kannski fyrst og fremst. Eru margir orðnir langeygir eftir að sjá einhverja stefnu, ja, einhverrar ríkisstjórnar í þessum málum.

Það er hins vegar athyglisvert að þegar kemur að gjaldtöku á farþegaflutninga frá Keflavíkurflugvelli til Reykjavíkur og til baka tókst, eftir harðvítuga baráttu, árið 2011 að fá afnumið sérleyfiskerfi sem hafði hamlað verulega samkeppni á þessari leið. Má raun og veru segja að það hafi spornað gegn fjölgun farþega sem nýttu sér þessa þjónustu og þar með nýttu sér almenningssamgöngur á þessari leið. Loks var opnað fyrir samkeppni en nú virðist sem einokunarfyrirtæki í eigu ríkisins hafi ákveðið, með sínum eigin hætti, að endurvekja einhvers konar sérleyfiskerfi með verulegri gjaldtöku.

Mig langar því að spyrja hæstv. ráðherra hvort þetta samrýmist stefnu ráðuneytisins í málefnum ferðaþjónustunnar, gjaldtöku innan greinarinnar og gjaldtöku á farþega til og frá Keflavíkurflugvelli.