Bráðabirgðaútgáfa.

148. löggjafarþing — 33. fundur,  5. mars 2018.

gjaldtaka í ferðaþjónustu.

[15:34]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Herra forseti. Það er auðvitað rétt, þegar horft er á gjaldtökuna sérstaklega með almennum hætti, að komugjöld leggjast fyrir það fyrsta bæði á erlenda ferðamenn en einnig á Íslendinga sjálfa og samkvæmt flestum athugunum á innanlandsflugið líka. Það er áhugavert að heyra sjónarmið ráðherra um það en tillögur um breytingu í virðisauka hefðu einmitt nýst almenningi hér á landi þar sem almenna þrepið hefði lækkað á móti.

En mér þykir athugunarvert, og hefði áhuga á að heyra nánar sjónarmið ráðherra um það, að sjá þá gjaldtöku sem á sér stað í Keflavík núna. Það er eins og einokunarfyrirtækið Isavia hafi ákveðið að grípa fram í fyrir stjórnvöldum, eða kannski gafst fyrirtækið upp á því að bíða, um gjaldtöku í ferðaþjónustu, ég veit það ekki. En þetta er alla vega sú gjaldtaka sem þarna er á ferðinni varðandi útboð á leyfum eða aðstöðu fyrir þau tvö fyrirtæki sem fá að njóta þess — og eru að greiða held ég um 30–40% af tekjum sínum í aðstöðugjald —og svo þau fyrirtæki sem eiga að greiða 19.900 kr. (Forseti hringir.) fyrir að fá að leggja rútum við Leifsstöð, sem er langt umfram alla þá gjaldtöku sem við sjáum í nágrannalöndum okkar. Ég hygg að annars staðar á Norðurlöndum (Forseti hringir.) sé þetta meira og minna gjaldfrjáls þjónusta. Þetta hlýtur að vekja spurningar um það hvor ráði för, stjórnvöld eða einokunarfyrirtækið Isavia.