148. löggjafarþing — 33. fundur,  5. mars 2018.

gjaldtaka í ferðaþjónustu.

[15:36]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Fyrst örstutt varðandi Isavia. Ráðherra ferðamála er ekki einu sinni með fulltrúa í stjórn Isavia. Talandi um stefnu, jú, við erum búin að ræða lengi um langtímastefnumótun í ferðaþjónustunni. Það er auðvitað mjög mikil stefnumótun í gangi, en að taka það allt saman með tilliti til samgönguáætlunar, með tilliti til þess hvað Isavia áformar að gera, þá þarf í miklu meira mæli að tala saman. Ég hef verið mjög skýr með það.

Varðandi þær spurningar sem hv. þingmaður spyr um þessi bílastæðagjöld þá spurði ég þeirra líka og sendi raunar erindi til Isavia og bíð eftir svörum við þeim, mun þá taka málið áfram eftir því hverju Isavia svarar.

Ef ég man rétt er mál líka fyrir héraðsdómi eða er á leiðinni þangað þar sem eitt fyrirtæki leitar réttar síns vegna þessa. Þannig að sjáum þá líka hvað kemur út úr því.