148. löggjafarþing — 33. fundur,  5. mars 2018.

landverðir.

[15:37]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Mig langar að beina máli okkar, þingsins og hæstv. ráðherra, að landvörslu. Nú er það svo að landverðir sinna mjög fjölbreyttu og mikilvægu starfi úti um allt land. Þeir taka á móti ferðamönnum og fræða þá um ástand þeirra staða sem þeir sjá um. Þeir sinna náttúruvernd og eftirliti og eru alltaf til taks, eins og segir á vef Umhverfisstofnunar. Þeir eru að taka á móti fólki sem kann ekki á landið.

Nú heyri ég að staða landvörslu sé þannig að það stefni í að færri landverðir verði til staðar á þessu ári en því síðasta þar sem ákveðið hefur verið að setja minna fjármagn í landvörslu á Íslandi en áður. Ég heyri að það stefni í umhverfisslys á mörgum stöðum, við margar náttúruperlur, þar sem enginn landvörður er en mjög mikill fjöldi ferðamanna fer samt um svæðið, heldur sig ekki á stígum, fer utan þeirra girðinga sem settar eru upp, til þess að taka myndir eða annað, einfaldlega af því að þeir vita ekki betur. Það er ekki landvörður á svæðinu til að stýra umferðinni, hún er það mikil að þörf er á því.

Mig langaði að spyrja hæstv. ráðherra: Hversu margir landverðir voru við störf á síðasta ári og hversu mörgum landvörðum er gert ráð fyrir á þessu ári? Og ég spyr almennt um þá stöðu sem náttúruperlurnar okkar eru í; kostnaðurinn við að umhverfisslys verði, sem er verið að vara við, verður margfaldur á við að hafa landverði á þessum stöðum.