148. löggjafarþing — 33. fundur,  5. mars 2018.

skýrsla greiningardeildar ríkislögreglustjóra um skipulagða glæpastarfsemi.

[15:55]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Karli Gauta Hjaltasyni fyrir að hefja þessa þörfu umræðu. Ófremdarástand í löggæslumálum hefur áður borið á góma á Alþingi og við, þingmenn Samfylkingarinnar, höfum oft vakið máls á þörf úrbóta á þessu sviði. Við höfum flutt beinar tillögur um meiri fjárframlög til handa lögreglunni og fjölgun starfa.

Ísland er í þjóðbraut og hefur á undraskjótum tíma orðið eitt helsta ferðamannaland í heimi með ævintýralegum vexti. Við það breytist yfirbragð samfélagsins og skyldur lögreglunnar vaxa að sama skapi. Taka ber varnaðarorðin alvarlega sem eru í þessari skýrslu og síst af öllu vil ég gera lítið úr þeirri hættu sem landi og þjóð stafar af skipulagðri glæpastarfsemi sem hér á sér stað eins og annars staðar í heiminum. Lögreglan þarf að fá meiri mannafla til að rannsaka slíka starfsemi og sporna við glæpum á borð við mansal.

Mig langar engu að síður til að minna á að Ísland hefur það orðspor á alþjóðavísu, sem er óumræðilega dýrmætt, að hér sé eitt friðsamlegasta og öruggasta samfélag á jörðunni. Í því felast verðmæti, fyrir utan það að sjálfsögðu hvílík gæfa það er fyrir okkur að búa flestöll í daglegu lífi okkar við sæmilegan frið og öryggi.

Eitt af því sem skapað hefur þá mynd af Íslandi er að hér eru vopnaðir menn (Forseti hringir.) nánast óþekkt sjón á almannafæri. Og þannig held ég að við viljum hafa það áfram.