148. löggjafarþing — 33. fundur,  5. mars 2018.

skýrsla greiningardeildar ríkislögreglustjóra um skipulagða glæpastarfsemi.

[15:58]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg):

Virðulegur forseti. Þótt ekki hafi ég setið lengi á þingi hef ég nokkuð oft átt umræðu um þörf á auknum mannafla og fjármunum til löggæslumála. Þannig var það síðasta vor, þegar við ræddum fjármálaáætlun, að ítrekað var bent á að markmið um að skilgreina mannaflaþörf lögreglunnar og skilgreina þörf hennar fyrir fjármagn, sem rætt er um í þingsályktun um löggæsluáætlun, hafi ekki ratað í fjármálaáætlun til samræmis. Það var mjög miður og leiddi til þess að á sama tíma og vopnaðir lögreglumenn birtust í skemmtiskokki víða um bæinn vorum við ekki að bæta við fjármunum í sýnilega almenna löggæslu. Við vorum ekki að styrkja lítil lögreglulið í dreifðum byggðum. Mig langar þess vegna að spyrja ráðherrann hvort við megum búast við því að sú fjármálaáætlun sem á að birtast nú á næstu vikum boði aukna fjármuni í mannafla í takt við þá þörf sem svo augljóslega er fyrir hendi.

Í umræðunni fyrir ári kom fram hjá mörgum embættum víða um land að aðhaldskrafa myndi leiða til þess að lítil embætti þyrftu jafnvel að skera niður á næstu fimm árum, fækka lögregluþjónum á vakt. Mér datt þetta í hug þegar ég var fyrir norðan á ráðstefnu um löggæslu og samfélagið hjá Háskólanum á Akureyri, þar sem við fengum að heyra sögur af vettvangi. Þegar við fáum umsagnir hingað inn eru þær oft úr tengslum við raunveruleikann. Það var dálítið sláandi að sjá fyrir sér lögreglumann einan á vakt, eins og er farið að gerast æ oftar úti um landið, að aka um strjálbýlt, fámennt svæði. Hann ekur kannski fram á umferðarslys og er þá eini viðbragðsaðilinn í 20–30 mínútna fjarlægð, hann þarf að sinna öllu í senn, hlúa að slösuðum, tryggja rannsóknarhagsmuni, stýra umferð og tryggja öryggi viðstaddra. Þetta þurfum við að bæta.