148. löggjafarþing — 33. fundur,  5. mars 2018.

skýrsla greiningardeildar ríkislögreglustjóra um skipulagða glæpastarfsemi.

[16:05]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Forseti. Ég þakka málshefjanda fyrir að hefja umræðu um þetta mikilvæga málefni. Það er tvennt sem mér þykir sérstaklega standa upp úr við lestur skýrslunnar. Ég tek undir með hv. þm. Önnu Kolbrúnu Árnadóttur, sem talaði hér rétt á undan mér, að það er mjög mikilvægt að við getum brugðist með viðeigandi hætti við mansali, sérstaklega vinnumansali en líka kynlífsþrælkun og auknu vændi eins og komið hefur fram. Þar vil ég sérstaklega benda á að okkur vantar enn að aðgerðaáætlun gegn mansali sé uppfærð. Hún er ekki í gildi sem stendur. Ég sé ekkert bóla á henni.

Því vil ég spyrja hæstv. ráðherra: Hvenær stendur til að leggja fram aðgerðaáætlun gegn mansali svo að við getum brugðist við með fullnægjandi hætti? Við vitum líka að þess eru dæmi að fórnarlömbum mansals sé vísað úr landi án nokkurrar aðstoðar eða stuðnings eftir að hafa orðið fyrir þessum glæpum. Ég spyr ráðherra hvenær hún hyggist gera bragarbót á þessu og leggja fram enn á ný aðgerðaáætlun gegn mansali.

Svo er annað sem vekur athygli mína í þessari skýrslu, en það er sífellt ákall lögreglunnar um forvirkar rannsóknir og forvirkar rannsóknarheimildir. Ég verð í því samhengi að segja að það er góðra gjalda vert að leggja þetta til, en þá verður líka að vera samhliða því virkt og sjálfstætt eftirlit með störfum lögreglu til að þessum aðgerðum sé ekki beitt með ótilhlýðilegum hætti.

Nefnd um eftirlit með störfum lögreglu hefur ekki enn skilað inn ársskýrslu um hvernig henni hefur gengið að hafa eftirlit með störfum lögreglu. Ég spyr því ráðherra: Hvenær stendur til að þessi ársskýrsla komi? Eitt ár er liðið frá því hún tók til starfa og rúmlega það. Hvenær liggur þetta fyrir? Telur ráðherra ekki ástæðu til að styrkja eftirlit með störfum lögreglu, sjálfstæði í eftirliti með störfum lögreglu, ef til stendur að veita henni frekari heimildir til forvirkra rannsókna?