148. löggjafarþing — 33. fundur,  5. mars 2018.

skýrsla greiningardeildar ríkislögreglustjóra um skipulagða glæpastarfsemi.

[16:07]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir að vekja máls á þessari skýrslu sem er fyrir margra hluta sakir ákaflega merkileg og varpar ljósi á vanda sem við þurfum að fást við í auknum mæli. Mig langar í fyrri umferð að beina sjónum mínum að þeim þætti sem lýtur að alþjóðavæðingu glæpastarfsemi á Íslandi. Í því samhengi beini ég sjónum að samstarfi íslensku lögreglunnar við lögregluyfirvöld í Evrópu og á alþjóðavísu, í Schengen-samstarfinu. Það er nú þannig að grundvöllur þess að geta fengist við alþjóðlega glæpastarfsemi hlýtur að vera mikil og náin samvinna við yfirvöld í öðrum löndum sem fást við glæpi af því tagi.

Ég held að það sé mikilvægt að við búum þannig um hnúta að Ísland og íslenska lögreglan verði ekki veikur hlekkur í því samstarfi, þ.e. að hún sé bæði í stakk búin til þess að sinna alþjóðlegu samstarfi og geti brugðist við og nýtt sér þær upplýsingar og þá samvinnu sem þar er að finna um það hvernig tekist er á við glæpi af þessu tagi, upplýsingar um glæpastarfsemi, upplýsingar um einstaka glæpamenn o.s.frv.

Mig langar að beina þeirri spurningu til hæstv. dómsmálaráðherra hvort það sé ekki algjörlega skýrt að það sé forgangsatriði að styrkja lögregluna til að taka þátt í slíku samstarfi og að það sé mat (Forseti hringir.) hæstv. dómsmálaráðherra að mjög mikilvægt sé að það samstarf sé mjög vel virkt.