148. löggjafarþing — 33. fundur,  5. mars 2018.

skýrsla greiningardeildar ríkislögreglustjóra um skipulagða glæpastarfsemi.

[16:10]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (Flf):

Herra forseti. Í þessari mikilvægu skýrslu, sem felur í sér ótvíræð varnaðarorð en um leið ákall eftir því að lögreglunni verði tryggður nægilegur liðsafli og búnaður til að rækja skyldur sínar, kemur fram að það sé þekkt á Norðurlöndum og víðar í Evrópu að glæpasamtök nýti sér lögleg, opinber kerfi fyrir starfsemi sína. Þetta á til dæmis við um bótakerfi, um vinnumiðlanir og um móttökukerfi flóttafólks og umsækjenda um alþjóðlega vernd. Þessi fullyrðing er studd með dæmum sem ekki er ráðrúm til að fara yfir hér. En það kemur sömuleiðis fram að stefna íslenskra stjórnvalda hafi á undanliðnum misserum verið fallin til að auka, eins og það heitir, aðdráttarafl Íslands sem áfangastaðar fyrir farandfólk í leit að betri lífskjörum.

Fram kemur að stigin hafi verið skref til þess að laga lagaumhverfið hér á landi að því sem ríkir annars staðar á Norðurlöndum og nefndar hérna tvær reglugerðir. Vil ég af því tilefni spyrja ráðherra hvort ráðherra telji nægilegt hafa verið að gert í þessum efnum.

Í skýrslunni segir, með leyfi forseta:

„Dæmi eru um að þeir sem sótt hafa um alþjóðlega vernd frá tilteknum ríkjum haldi strax aftur til Íslands eftir að hafa verið synjað um vernd og hlotið lögreglufylgd úr landi“.

Ályktunin er að þarna fari fram skipulögð misnotkun á móttökukerfi alþjóðlegrar verndar á Íslandi.

Af þessu tilefni spyr ég ráðherra: Telur ráðherra nóg hafa verið að gert til að setja undir þennan leka?