148. löggjafarþing — 33. fundur,  5. mars 2018.

skýrsla greiningardeildar ríkislögreglustjóra um skipulagða glæpastarfsemi.

[16:14]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Herra forseti. Í skýrslunni sem hér er undir kemur margt fróðlegt fram. Þótt Ísland sé eitt friðsamasta land í heimi og með tiltölulega lága glæpatíðni geta slíkir hlutir breyst. Auðvitað ber ætíð að gæta að borgaralegum réttindum einstaklinga þegar kemur að hvers konar greiningarvinnu lögreglu. Engu að síður er slík vinna mikilvæg og okkur hér á þingi ber að taka ábendingar fagaðila alvarlega. Áhætta vegna skipulagðrar glæpastarfsemi á Íslandi er sögð vera mikil og er sérstaklega varað við auknum umsvifum skipulagðra glæpahópa, svo sem í mansali og vændi.

Það er ljóst að Ísland er ekki eyland þegar kemur að alþjóðlegri glæpastarfsemi og auðvitað getur það oft verið auðveldara og jafnvel ódýrara að koma í veg fyrir að eitthvað gerist í stað þess að bregðast við einhverju ástandi. Þetta á að sjálfsögðu við um glæpi.

Herra forseti. Löggæslan er ein af grunnstoðum ríkisvaldsins. Okkur ber því að fjármagna lögregluna svo vel sér gert. Samfylkingin hefur sýnt í verki að hún vill styrkja löggæsluna í landinu, nú síðast þegar fjárlög voru afgreidd. Þess vegna er það ákveðinn tvískinnungur hjá stjórnarliðum að koma ítrekað í þennan sal og tala um að þeir vilji gera allt fyrir lögregluna.

Herra forseti. Verkin tala og allir stjórnarliðar felldu tillögur okkar um aukinn stuðning til lögreglunnar fyrir einungis rúmum tveimur mánuðum.

Herra forseti. Það segir sína sögu.