148. löggjafarþing — 33. fundur,  5. mars 2018.

skýrsla greiningardeildar ríkislögreglustjóra um skipulagða glæpastarfsemi.

[16:16]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg):

Herra forseti. Aukið álag á löggæslu kallar á aukið fé og mannafla og það leysum við heildrænt en ekki í skyndingu. Orsök álagsins er meðal annars allhröð fólksfjölgun, að hluta til útlendingar til vinnu og búsetu á landinu, stóraukinn ferðamannastraumur, aukinn innflutningur fíkniefna, mansal o.fl., í samvinnu innlendra og erlendra aðila, á það legg ég áherslu, það hefur komið í ljós.

Í löggæslumálum vil ég leggja höfuðáherslu á almenna eflingu löggæslustarfa í landinu. Það vantar hér langt yfir 200 lögreglumenn til að standa jafnfætis íbúahlutfallinu fyrir hrun og í skjóli aukinnar umferðar tveggja til þriggja milljóna ferðamanna og hraðvaxandi umsvifa í þjóðfélaginu hafa vissulega orðið til vaxtarhillur skipulagðrar glæpastarfsemi. Við erum enn langt frá Norðurlöndum í umfangi þessa en þó eru vísbendingar til staðar og við þeim þarf að bregðast.

Ég vil vara hraustlega við að gera útlendinga að meginblórabögglum í þessu tilliti, jafnvel á fleiri sviðum en afbrotum. Þetta er allt saman flókið samspil fólks, bæði innlends og útlends, í heimi afbrota og snýr ekki fyrst og fremst að útlendum ríkisborgurum. Það eru til drög að löggæsluáætlun og þar vísa ég í stjórnarsamkomulagið. Ég slæ því hér fram hvort það sé ekki þjóðráð, þegar verið er gera þetta umrædda þjónustukort í heilbrigðisþjónustunni, að taka líka til hina almennu löggæslu.