148. löggjafarþing — 33. fundur,  5. mars 2018.

skýrsla greiningardeildar ríkislögreglustjóra um skipulagða glæpastarfsemi.

[16:18]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Ég ítreka þakkir fyrir þessa mikilvægu umræðu hér til hv. þm. Karls Gauta Hjaltasonar. Ég endaði fyrri ræðu mína á því að segja að þessi umræða og skýrsla staðfesti þau áhyggjuefni sem blasa við um þá breytingu og þá ógn, sem samfélagið er að takast á við, sem af slíkri þaulskipulagðri starfsemi stafar. Sú ógn hefur aukist, að því er virðist, gífurlega í seinni tíð, þegar kemur að fíkniefnum, mansali, vændi, peningaþvætti og öllu því sem þessu tilheyrir.

Í seinni tíð hefur heyrst mikið ákall um að það vanti að bæta verulega í í mannafla. Það þarf breytt vinnubrögð. Ég fagna boðaðri löggæsluáætlun hæstv. ráðherra þar sem við getum tekist enn frekar á við þessi verkefni. Það hefur komið fram að það þarf breytta nálgun, breytt vinnubrögð, frumkvæðislöggæslu, farþegalistagreiningu og aukið samstarf við erlend yfirvöld, Europol, Eurojust, þessi starfsemi er af þeim toga. Það þarf líka aukna þjálfun lögreglunnar.

Það hefur komið fram að þetta kostar allt peninga og fjölmörg önnur verkefni bíða. En ég vil þakka fyrir þessa umræðu og ég held að löggæsluáætlun muni í framhaldinu verða ansi mikilvæg í þessari umræðu.