148. löggjafarþing — 33. fundur,  5. mars 2018.

skýrsla greiningardeildar ríkislögreglustjóra um skipulagða glæpastarfsemi.

[16:27]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (Flf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. dómsmálaráðherra fyrir svör hennar og einnig öðrum þingmönnum sem tóku þátt í þessari umræðu um skýrslu greiningardeildar. Mér heyrist flestir taka skýrsluna mjög alvarlega og er það algjörlega eftir efni hennar og innihaldi.

Ég saknaði þess auðvitað að hæstv. ráðherra kæmi ekki hingað upp og færði lögreglunni skýr skilaboð, t.d. um fjölgun lögreglumanna. Ég saknaði þess en að öðru leyti þakka ég henni fyrir svörin sem voru ágæt. Ég ætlaði kannski líka að bæta svolítið við mína fyrri ræðu, sérstaklega varðandi landamærin.

Ég get ekki skilið við þessa umræðu án þess að minnast á mikilvægi landamæranna því að skipulögð glæpastarfsemi er ein mesta ógnin sem stafar að landamæravörslu. Hér er ég að tala um Keflavíkurflugvöll sem er okkar mikilvægustu landamæri og kallar á mikil umsvif lögreglunnar. Þar hefur skilríkjamálum fjölgað verulega. Lögreglan segir einnig í skýrslunni að virkt eftirlit lögreglu með útlendingum, í samræmi við inntak Schengen-samningsins, sé takmarkað sökum manneklu. Í því sambandi er farþegalistagreining nefnd sem er eitt öflugasta tæki lögreglu við landamæraeftirlit. Vegna skorts á mannafla og fullnægjandi tækjabúnað er þessu verkefni, farþegalistagreiningu, lítið sinnt sem telst verulegur veikleiki.

Til þess að koma í veg fyrir alvarlega glæpi, sem teygja sig þvert yfir landamæri, t.d. mansal og fíkniefnaviðskipti, er mjög brýnt að tekið verði upp skilvirkt kerfi við farþegalistagreiningu á landamærunum.