148. löggjafarþing — 33. fundur,  5. mars 2018.

skýrsla greiningardeildar ríkislögreglustjóra um skipulagða glæpastarfsemi.

[16:29]
Horfa

dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir ánægjulega umræðu og upplýsandi um afstöðu hv. þingmanna, langflest mjög málefnalegt. Ég verð þó að segja það og ítreka, þreytist ekki á að segja það, að hvað mannafla varðar og fjárframlög til lögreglunnar þá hafa fjárheimildir verið auknar frá árinu 2013–2014 fram til dagsins í dag um 4,7 milljarða. Það eru um 2 milljarðar að teknu tilliti til vísitalna. Það liggur fyrir að á fjárlögum fyrir árið 2014 var samþykkt 500 millj. kr. fjárveiting til að efla löggæsluna, 2016 400 millj. kr., 2017 hátt í milljarður, og á fjárlögum 2018 var 400 millj. kr. tímabundið framlag, sem úthlutað var árið 2017, gert varanlegt. Á fjárlögum 2018 voru þess utan framlög til lögreglunnar aukin um 218 millj. kr. til eflingar málsmeðferð í kynferðisbrotamálum. Þetta eiga hv. þingmenn að þekkja mjög vel.

Fjárframlögin hafa því verið aukin verulega og lögreglumönnum hefur verið fjölgað eins og kynnt var hér nýlega. Það er von mín að við getum gert enn betur á næstu árum. Ég tel það nauðsynlegt og tek sérstaklega undir með hv. þingmanni, málshefjanda, um landamæravörsluna. Ég legg á það mikla áherslu að lögreglumönnum verði fjölgað við landamæravörslu mjög fljótlega.

Ég vil einnig nefna, af því að hér barst í tal samstarf við önnur lönd, að við erum í mjög mikilvægu samstarfi sem við höfum mikinn hug á að efla. Við höfum um árabil átt gott samstarf við Europol, þ.e. Evrópulögregluna, átt fulltrúa þar innan dyra. Nú er ég sérstaklega að skoða aukið samstarf við stofnunina Eurojust, sem er stofnun Evrópusambandsins, um ákærumál í sakamálum sem teygja sig yfir landamæri, og eru grundvallarforsenda fyrir samstarfi á milli ríkja er kemur að skipulagðri brotastarfsemi milli landa.

Ég þakka hv. þingmönnum fyrir umræðuna.