148. löggjafarþing — 33. fundur,  5. mars 2018.

úrskurðir sýslumanns í umgengnismálum.

229. mál
[16:43]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Björn Leví Gunnarsson) (P):

Virðulegi forseti. Það verður gaman að fara í gegnum svör ráðherra en það voru nokkur atriði sem ég hjó eftir, t.d. að sýslumaður hefur ekki sett sér verklagsreglur. Í tilvitnuninni sem ég las hér upp áðan þá vísar sýslumaður einmitt til þessara skýru verklagsreglna og fastmótaðra venja um mörg þau atriði sem aðilar umgengnismála deila um.

Þar virðist sýslumaður taka sér reglusetningarheimild, en ráðherra segir samt að sýslumaður hafi ekki sett sér slíkar verklagsreglur. Þá velti ég fyrir mér hvort sé satt, það sem ráðherra segir eða það sem sýslumaður segir sjálfur í úrskurðum sínum. Þetta tel ég að sé eitthvað sem þurfi að fara vel yfir og athuga hvernig mál er með vexti þar.

Ég spurði fjögurra spurninga og ég skil að það sé erfitt að koma svörum við þeim öllum að á fimm mínútum en þannig er uppsetningin og þannig eru tímamörkin sett og ég bjóst við því að ráðherra myndi skipuleggja þá svarið á þann hátt að það kæmist fyrir á fimm mínútum. En lykilspurningin er kannski síðasta spurningin þar sem barnasáttmálinn er tengdur við fyrri spurningarnar, þar sem það á að taka tillit til vilja barnanna eftir þroska þeirra og aldri. Í þeim úrskurðum sem ég hef fengið að skoða, í nákvæmlega þeim úrskurðum, er það gegnumgangandi að vilji barnanna er ekki hafður í hávegum.

Það virðist vera eins og það sé verið að vinna út frá eldri lögum þar sem bara sé litið til réttar foreldra sem togast á um barnið en barnið fái vilja sínum ekki framfylgt á skýran hátt.