148. löggjafarþing — 33. fundur,  5. mars 2018.

kostnaður við hjúkrunarheimili og heilbrigðisþjónustu.

140. mál
[16:48]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Ólafur Þór Gunnarsson) (Vg):

Herra forseti. Forsaga þessarar fyrirspurnar er að nú um allnokkurt skeið hefur það tíðkast að tekið er tiltekið gjald að hámarki fyrir dvöl einstaklinga á hjúkrunarheimili, þ.e. sá hlutur sem þeir sem þar dvelja eða búa þurfa að greiða fyrir dvölina. Eins og hæstv. ráðherra er vafalítið kunnugt um og þingmönnum öllum þá eru þetta núna að hámarki tæplega 400 þús. kr. á mánuði.

Undirritaður hefur hins vegar velt því fyrir sér að þarna geti verið um að ræða eiginlega innheimtu fyrir heilbrigðisþjónustu sem er töluvert umfram það sem við erum með í almennara kerfi. Hámarkið á kostnaði vegna heilbrigðisþjónustu hjá einstaklingum er töluvert lægra en það gæti verið samkvæmt þessum tölum sem ráðuneytið styðst við.

Þetta er í raun ástæðan fyrir fyrirspurninni, þ.e. hversu stór hluti kostnaðar er við rekstur hjúkrunarheimilanna vegna heilbrigðisþjónustu og hvernig honum er skipt niður.

Við þekkjum öll húsnæðiskostnað á Íslandi. Við höfum heyrt tölur af því og umræðu um að leiguverð sé býsna hátt, en alla vega hefur maður ekki heyrt mikið talað um leigu upp á 400 þús. kr. eða þaðan af meira fyrir húsnæði, en þó kann það vafalítið að vera til.

Í framhaldi af þessu held ég að sé mikilvægt að ráðherra og ráðuneyti hennar reyni með einhverju móti að þátta þennan kostnað, þessa kostnaðarþætti, svolítið niður til þess að sé hægt að gera sér grein fyrir því hvort við séum óafvitandi og líklega óviljandi að innheimta fyrir heilbrigðisþjónustu í meira mæli en við höfðum hugsað okkur.

Þá í framhaldi af því spyr ég hvort ráðherra muni taka til athugunar að notuð verði sömu viðmið, bæði úti í almenna samfélaginu og eins inni á hjúkrunarheimilum.

Að lokum hvort það komi til álita að kostnaðarþátttaka hjúkrunarheimilanna verði tekin til endurskoðunar með það fyrir augum að kostnaður vegna heilbrigðisþjónustu þeirra verði ekki meiri en annarra landsmanna.

Jafnvel þótt við værum mjög viljug í að meta eitthvað sem ekki heilbrigðisþjónustu, þó það væri ekki nema 5 þús. kr. á mánuði sem væri heilbrigðisþáttur inni í þessu, þá værum við samt komin yfir heildargjöldin sem aðrir eldri borgarar landsins þurfa að inna af hendi.