148. löggjafarþing — 33. fundur,  5. mars 2018.

kostnaður við hjúkrunarheimili og heilbrigðisþjónustu.

140. mál
[16:58]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir fyrirspurnina og áréttinguna í síðari ræðu hv. þingmanns. Það er sannarlega til umhugsunar sem hv. þingmaður byggir fyrirspurn sína á, hvort hér sé þörf á meira gagnsæi varðandi það hvað liggur á bak við gjaldið og hvað er í raun verið að greiða fyrir, þannig að engir freistist til þess að láta flæða þar á milli.

Það er mjög mikilvægt að það liggi fyrir með skýrum hætti, ekki síst fyrir þá sem þjónustunnar njóta.

Fram kemur í stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar að treysta þurfi enn frekar rekstrargrunn fyrir hjúkrunarheimilin. Það kemur auðvitað líka inn í þessa umræðu að það er alveg ljóst að það sem heyrir til ábyrgðar ríkissjóðs þarf líka að liggja fyrir með skýrum hætti þannig að það gerist ekki í þessu efni frekar en öðrum að greiðsluþátttaka sjúklinga sé of mikil.