148. löggjafarþing — 33. fundur,  5. mars 2018.

sjúkraflutningar.

237. mál
[17:00]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Guðjón S. Brjánsson) (Sf):

Herra forseti. Sjúkraflutningar eru mikilvægur hlekkur í heilbrigðisþjónustu landsmanna. Það er af sem áður var. Þær kröfur sem gerðar voru til áhafna sjúkrabifreiða voru að þar væru fyrst og fremst liprir ökumenn, sérstaklega á öðru hundraðinu. Nútímasjúkrabifreiðar eru í raun vel útbúin bráðasjúkrarými á hjólum, sem kallar á færni þeirra sem um véla. Sjúkraflutningamenn eru fagmenntaðir og vel þjálfaðir einstaklingar sem hafa skýrt skilgreinda verkferla um borð.

Þessi málaflokkur hefur verið talsvert til umræðu að undanförnu, skipulag þjónustunnar, hverjir eiga að annast þjónustuna og hvernig og hvar sjúkrabifreiðar eiga að vera staðsettar og fleira. Rauði kross Íslands hefur verið merkisberi sjúkraflutninga frá því að þessi þjónusta komst á legg og hefur verið þeim dýrmætt verkefni. Þeir hafa rækt það af mikilli alúð. Fyrirkomulagið er nú þannig að allar sjúkrabifreiðar í landinu eru eign Rauða kross Íslands, en umsýsla er að öðru leyti á vegum heilbrigðisþjónustunnar, heilsugæslustöðva víðast hvar úti um landið.

Ég hef því óskað eftir því við hæstv. ráðherra að hún svari nokkrum spurningum varðandi þessa mikilvægu þjónustu.

Fyrsta spurningin er þessi: Hyggst ráðherra ganga til samninga við Rauða kross Íslands sem hefur verið samningslaus um þennan rekstur í tvö og hálft ár, eða eru menn að velta fyrir sér einhverri annarri leið og þá hvaða leið? Mér skilst að enn sé verið að þæfa málið og það sé ekki afgreitt.

Í öðru lagi: Hafi ráðherra í hyggju að semja við RKÍ, til hve langs tíma verður samið?

Í þriðja lagi: Munu nýir samningar fela í sér áherslubreytingar, svo sem fjölgun eða fækkun sjúkrabifreiða, og breytingar á staðsetningu þeirra á landsbyggðinni?

Það málefni var töluvert á dagskrá heilbrigðisyfirvalda fyrir allnokkrum misserum. Þá átti að fækka sjúkrabifreiðum talsvert um landið.

Í fjórða lagi: Hvernig horfir skipulag sjúkraflutninga til langs tíma við ráðherra?

Geta má síðustu umræðu um aðkomu björgunarsveita og fyrstu viðbragðsaðila á landsbyggðinni, sem er raunhæft í nokkrum tilvikum.

Og að síðustu: Hafa allir þættir þessarar þjónustu verið metnir, þeir sem lúta að gæðum þjónustunnar og kostnaði við rekstur, viðhald og þróun?