148. löggjafarþing — 33. fundur,  5. mars 2018.

sjúkraflutningar.

237. mál
[17:09]
Horfa

Þórunn Egilsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka málshefjanda kærlega fyrir að vekja máls á þessu mikilvæga máli. Ég tek undir með hæstv. ráðherra að hér er efni í sérstaka umræðu og hana jafnvel tvöfalda eða þrefalda.

Ég tek undir með hv. þm. Vilhjálmi Árnasyni að yfirferð hæstv. ráðherra vekur mér von í brjóst að hér sé verið að veita þessum málaflokki aukna athygli og jafnvel komi þar inn aukning eða styrking. Við þekkjum það víða úti um land að dregið hefur verið úr þjónustu við íbúana og í mínu kjördæmi, sem er Norðausturkjördæmi, vil ég nefna sérstaklega Ólafsfjörð. Þar er búið að taka sjúkrabílinn af staðnum, fólk upplifir minna öryggi og skerta þjónustu og það er alls ekki gott þegar sú staða kemur upp. Þetta er raunin á fleiri stöðum þar sem er farið að tala um að draga úr þessari þjónustu, þannig að ég kalla eftir því að fá að vita hvernig staðan í þeim málum er.