148. löggjafarþing — 33. fundur,  5. mars 2018.

sjúkraflutningar.

237. mál
[17:13]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Guðjón S. Brjánsson) (Sf):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin sem voru giska skýr. Ráðuneytið ætlar að taka þessa þjónustu til sín eftir þrjú ár án þess að hafa gert á því úttekt hvort það sé hagkvæmara, hvort þjónustan verði betri, skýrari eða greinarbetri, með því laginu. Það verður ekki öðruvísi skilið en svo að óánægja sé með þjónustu Rauða krossins í gegnum 60 ára tímabil. Eða hvað?

Því miður er hætta á því að út um land verði þessi áframhaldandi grisjun til þess að enn erfiðara verði að manna bílana og fleiri verkefni flytjist yfir á herðar björgunarsveita. Er það stefna ráðherra að björgunarsveitirnar muni annast sjúkraflutninga í ríkara mæli úti á landi? Verða þá gerðir samningar við björgunarsveitirnar til þess að annast þann þátt? Þetta er ekkert lítið mál því að Rauði krossinn á allan þennan bílaflota. Í þeim bílaflota eru mikil verðmæti fólgin; hann kostar vel á annan milljarð króna eins og staðan er núna. Það veldur vonbrigðum að ekki skuli liggja fyrir hagkvæmnisúttekt á því áður en það skref er stigið að færa þetta yfir til ráðuneytisins.