148. löggjafarþing — 33. fundur,  5. mars 2018.

heilbrigðisþjónusta á landsbyggðinni.

244. mál
[17:20]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir spurningarnar og ætla að vinda mér í að svara þeim. Ég held að mér veiti ekki af tímanum. Fyrsta spurningin er um það hvernig ráðherra hyggist vinna að uppbyggingu heilbrigðisþjónustu um allt land. Því er til að svara að forstjórar heilbrigðisstofnananna sex á landsbyggðinni, forstjórar sjúkrahúsanna tveggja og forstjóri Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins vinna nú, ásamt sérfræðingum ráðuneytisins, að því að greina þörf og notkun á sérhæfðri heilbrigðisþjónustu í öllum heilbrigðisumdæmum landsins. Markmiðið er að tryggja sem jafnastan aðgang allra landsmanna að sérhæfðri heilbrigðisþjónustu sérgreinalækna sem annarra. Þá þjónustu má veita með því að sérfræðingurinn verði ráðinn á heilbrigðisstofnun á landsbyggðinni, með því að sérfræðingur komi frá Landspítala eða Sjúkrahúsinu á Akureyri eða með því að nýta tæknina í gegnum fjarheilbrigðisþjónustu. Í ráðuneytinu er einnig verið að skoða skipulag sjúkraflutninga á landi og í lofti með það að markmiði helst að tryggja að allir landsmenn, óháð búsetu, njóti sérhæfðrar þjónustu, hvort sem er vegna sjúkdóma eða slysa. Ofangreind vinna er hluti af heildarstefnumótun í veitingu heilbrigðisþjónustu sem við höfum kallað Hver gerir hvað?

Hv. þingmaður spyr í öðru lagi hvernig ráðherra hyggist tryggja stöður heilsugæslulækna á landsbyggðinni. Svarið er svohljóðandi: Eins og fyrirspyrjanda er kunnugt eru fjárveitingar vegna læknamönnunar í heilsugæslu á landsbyggðinni miðaðar við íbúafjölda á einstökum svæðum. Almennt er miðað við að ein staða heilsugæslulæknis sé á hverja þúsund íbúa í dreifbýli. Fjármunir eru því til staðar en á undanförnum árum hafa heilsugæslulæknar kosið að ráða sig sem verktaka á heilsugæslustöðvar fremur en að vera launamenn.

Spurt er hvort einhver skipulögð vinna standi yfir sem miði að úrbótum í málaflokknum að þessu leyti. Svarið er svohljóðandi: Sérnámsstöðum heilsugæslulækna hefur verið fjölgað á síðustu árum og reynt að tryggja stöður þeirra í öllum heilbrigðisumdæmum. Reynslan hefur sýnt að sérnámslæknar setjast gjarnan að í þeim umdæmum þar sem þeir hafa stundað nám sitt. Einn aðalvandinn við mönnun heilsugæslulækna í dreifbýli er sú mikla vaktabyrði sem starfinu fylgir. Læknar vilja síður ráða sig í stöður ef starfinu fylgir bakvakt alla daga vikum og mánuðum saman. Ein leið til að létta vaktabyrðina er að sameina vaktsvæði. Þá þarf einnig að horfa til þeirra möguleika sem tæknin veitir og má þar nefna ágætan árangur af skipulagi þjónustunnar á Klaustri þar sem hjúkrunarfræðingur er á vakt aðra hvora viku á móti lækni.

Í fjórða lagi spyr hv. þingmaður hvort ég telji ásættanlegt fyrirkomulag að verktakar haldi uppi læknisþjónustu í mörgum byggðarlögum. Svarið er svohljóðandi: Læknamönnun er mjög mismunandi eftir heilbrigðisumdæmum, allt frá því að allir heilsugæslulæknarnir séu launamenn, eins og hjá Heilbrigðisstofnun Suðurnesja, yfir í að meiri hluti læknanna séu verktakar. Hæsta hlutfall verktakalækna er nú hjá Heilbrigðisstofnun Austurlands sem helgast af fríum og forföllum en einnig af því að ekki hafa náðst samningar um kjör læknanna. Hjá Heilbrigðisstofnun Vesturlands er hlutfall verktakalækna einnig hátt en þar eru 9 stöður af 15 mannaðar læknum í verktöku. Vonir stóðu til þess að ýmis ákvæði í samningum Læknafélags Íslands og fjármálaráðherra í janúar 2015 myndu draga úr vægi verktöku í heilsugæslu í dreifbýli en svo varð því miður ekki. Velferðarráðuneytið hefur reglulegt samráð við forstjóra heilbrigðisstofnana og sameiginlega er leitað leiða til að tryggja ásættanlega mönnun lækna sem og annarra heilbrigðisstétta í öllum heilbrigðisumdæmum landsins.

Fimmta spurning hv. þingmanns er svohljóðandi: Hvaða áhrif hefur slitrótt heilbrigðisþjónusta á vellíðan og öryggi íbúa á landsbyggðinni og viðhorf þeirra til áframhaldandi búsetu þar? Ég tel að hv. þingmaður geti jafnvel svarað þessu betur en ég. Svarið er svohljóðandi fyrir mína parta: Rannsóknir er varða byggðamál hafa sýnt fram á að örugg heilbrigðisþjónusta er einn meginþátturinn í mati fólks á fýsileika búsetu um landið. Samfella í heilbrigðisþjónustu skiptir einnig miklu máli, þ.e. að stöðugleiki sé í mönnun lækna og annarra heilbrigðisstarfsmanna. Mér eru fullljósir þeir gallar sem fylgja verktöku lækna, þ.e. að erfiðara er að tryggja þá samfellu sem er svo mikilvæg í þjónustunni. Á hitt ber að líta að stjórnendur stofnananna kjósa, eðlilega, að ráða lækni í verktöku fremur en að hafa byggðarlagið læknislaust. Reynsla síðustu ára hefur sýnt að hver og einn verktakalæknir sinnir oft sama byggðarlaginu um einhvern tíma og þannig fæst sums staðar nokkur samfella í þjónustuna.

Að lokum spyr hv. þingmaður hver fagleg og fjárhagsleg áhrif slitróttrar heilbrigðisþjónustu innan heilbrigðiskerfisins séu. Svarið er: Ég hef þegar komið inn á þau faglegu áhrif sem orðið geta af skorti í samfellu í þjónustunni. Fjárhagsleg áhrif á íbúa í dreifbýli geta augljóslega orðið mikil ef þeir þurfa að sækja heilbrigðisþjónustu fjarri sinni heimabyggð. Ég vonast til þess að með þeirri vinnu sem ég vísaði til í svari mínu við fyrstu spurningu fyrirspyrjanda megi draga úr þeim kostnaði með því að færa þjónustuna til íbúanna fremur en að íbúarnir þurfi að sækja þjónustuna um langan veg. Mat stjórnenda heilbrigðisstofnana á fjárhagslegum áhrifum þess að læknar velji fremur að ráða sig í verktöku en fastráða sig er mismunandi. Með verktakafyrirkomulaginu kemur til dæmis ekki til sérstakra greiðslna vegna þátta eins og veikindaleyfa og námsleyfa en það er ljóst að þessi þáttur heilbrigðisþjónustunnar úti um land er einn þeirra sem er kannski mest krefjandi að leita lausna á.