148. löggjafarþing — 33. fundur,  5. mars 2018.

möguleikar ljósmæðra á að ávísa lyfjum og hjálpartækjum.

268. mál
[17:47]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og þeim sem hafa tekið þátt í þessari umræðu. Ég held nefnilega að það sé mikilvægt að hafa hjálpartækin með. Ég fagna því líka að hæstv. ráðherra ætlar að taka það sérstaklega fyrir og láta skoða.

Það er líka ánægjulegt að heyra að heildarendurskoðun lyfjalaga verður lögð fram næsta haust og þar verði þetta málefni tekið fyrir. Og af því að núverandi landlæknir er að fara að starfa sem aðstoðarmaður hæstv. ráðherra treysti ég því, miðað við umsögn sem kom fram síðast, að hann verði til skrafs og ráðagerða þegar kemur að þessu máli.

Auðvitað geta verið skiptar skoðanir á því eins og hér kom fram hvort um væri að ræða endurávísun á lyf en ekki upphaflega. Það getur vel verið að það eigi við um einhver slík lyf, en ég held samt sem áður að miðað við sex ára nám sem að baki liggur hjá ljósmæðrum sem eru hjúkrunarfræðingar í grunninn, þ.e. alla vega þær sem hafa útskrifast mörg undanfarin ár, þá eigum við að fara að fordæmi Norðurlandanna og Hollandi líka, eins og ég nefndi áðan, og heimila þetta.

Ég get alveg fallist á að í einhverju slíku, hvort sem það er varðandi hjálpartæki eða einhver tiltekin lyf, önnur en t.d. getnaðarvarnalyf eða eitthvað slíkt sem hér hefur verið nefnt, að það geti verið í upphafi hjá lækni en síðan getur eftirfylgnin verið af hálfu hjúkrunarfræðinga eða ljósmæðra. Það má alveg gefa sér það að þær geti ávísað því.

Við þurfum að nýta alla okkar starfsmenn í heilbrigðiskerfinu. Við erum alla jafna með mjög vel menntað fólk og engin ástæða í rauninni til að auka álag á lækna eða aðra slíka þar sem það þarf ekki að vera. Þótt mikið álag sé á hjúkrunarfræðingum og ljósmæðrum er þetta kannski eitthvað sem við getum (Forseti hringir.) dreift, a.m.k. ábyrgðinni.