148. löggjafarþing — 33. fundur,  5. mars 2018.

stuðningur við Fjölskyldumiðstöð Rauða krossins.

223. mál
[18:01]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Björn Leví Gunnarsson) (P):

Virðulegi forseti. Ég er náttúrlega að spyrja ráðherra óháð því hver gegnir embættinu, (Gripið fram í.) þannig að það komist skýrt til skila. Af þeim upplýsingum að dæma sem ég fékk var Fjölskyldumiðstöðin lögð niður af því að ekki fékkst stuðningur, sérstaklega frá hinu opinbera. Aðrir aðilar voru tilbúnir til að koma á móti ef hærra framlag fengist frá hinu opinbera, sem varð síðan ekki. Hluti ástæðunnar er kannski breytt fyrirkomulag í fjárlögum. Þarna tóku gildi lög um opinber fjármál þar sem þetta mál átti að vera meira á forræði ráðherra, þ.e. að stýra því hvernig farið væri með fjármagnið í staðinn fyrir að þetta væri á sérstökum lið í fjárlögum. Kannski var glufan þar líka.

Ég hegg í þau orð að vinna sé að fara í gang og að leitað sé að umgjörð. Þarna var umgjörð. Í þessum fjöldamörgu félögum sem hæstv. ráðherra vísar í er umgjörð. Ég tek undir með þeirri hugsun ráðherra að þarna sé málaflokkurinn í dálitlum brotum. Í fyrri fyrirspurn lýsti ég einmitt aðstæðum þar sem komið er inn á borð sýslumanns í umgengnismálum. Hérna er þetta í gegnum velferðarráðuneytið og í gegnum dómsmálaráðuneytið. Ég held að við þurfum að taka höndum saman og gera þetta sem fyrst. Við erum greinilega ekki að sinna skyldum okkar í þessum málaflokki eins og okkur er gert samkvæmt barnasáttmálanum og í barnalögum og barnaverndarlögum, að samfella sé í þjónustunni fyrir þessa skjólstæðinga sem mega sín kannski minnst.