148. löggjafarþing — 34. fundur,  6. mars 2018.

störf þingsins.

307. mál
[13:39]
Horfa

Halla Signý Kristjánsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Ég vil gera hér að umtalsefni fækkun opinberra starfa á landsbyggðinni sem sums staðar eru að verða á við fjölda hvítra hrafna. Nú bætast við uppsagnir starfa við sýslumannsembættið á Vesturlandi þar sem tveimur starfsmönnum af þremur var sagt upp í starfsstöð sýslumannsins í Búðardal og ekki á lengur að vera löglærður fulltrúi við sýslumannsembættið á Akranesi.

Markmiðið með sameiningu sýslumannsembættanna var þríþætt. Í fyrsta lagi að ná fram sparnaði með minni yfirbyggingu, í öðru lagi að þjónusta borgarana yrði tryggð og í þriðja lagi að efla stjórnsýsluna og gera hana í stakk búna til að taka að sér aukin verkefni. Það þarf ekkert að fjölyrða um að það er verið að skerða þjónustu fólks sem býr á þessu svæði. Í nútímasamfélagi má ætla að þjónusta sem þarf að sækja persónulega á ákveðið heimilisfang minnki með aukinni tækni. En það er ekki staðreyndin með fjölda opinberra starfa í landinu í heild heldur þjappast þau á lægri póstnúmeraröð.

Hér er ekki verið að gera athugasemd við að leitað sé allra leiða til að ná fram hagræðingu eða nýta sér tæknina til að auka fjölbreytni í þjónustu. En ég vil benda á þá staðreynd að lítið sem ekkert hefur verið gert í að nýta sér sterkari stjórnsýslu með sameiningu embætta til að færa verkefni frá ráðuneytum til embætta úti á landi. Það var hreinlega fest í lög að engir starfsmenn við sýslumannsembættið ættu að missa starfið vegna hagræðingar heldur ætti að tryggja embættunum aukin verkefni til að sýsla við. Ekki hefur verið staðið við þau loforð og enn fjölgar tómum fasteignum ríkisins um landið sem þarf að greiða af skatta og skyldur og hita upp. Með aukinni tækni væri hægt að flytja mörg verkefni því eins og hefur verið bent á þá virkar tæknin í báðar áttir. Ríkið má ekki vera frumkvöðull í að draga úr litrófi atvinnulífsins um landið.