148. löggjafarþing — 34. fundur,  6. mars 2018.

störf þingsins.

307. mál
[14:00]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Herra forseti. Í mánaðarskýrslu Íbúðalánasjóðs, sem birtist í dag, er að finna áhugaverðan samanburð á eignarhlut íslenskra fjölskyldna í íbúðum sínum, samanborið við eignarhlut evrópskra fjölskyldna heilt yfir. Þar kemur í ljós að vel rúmlega 60% íslenskra fjölskyldna skulda í húsnæðinu sem þær búa í, aðeins 15% búa á skuldlausu heimili. Í Evrópusambandinu, sem sumum hér inni þykir ekki til mikillar fyrirmyndar, eru þessi hlutföll 43%, sem búa í skuldlausu húsnæði, og um 45% sem búa í húsnæði með einhvers konar skuldsetningu í. Það eru með öðrum orðum þrefalt fleiri í Evrópusambandinu sem búa í skuldlausu húsnæði en hér á landi.

Þetta er enn eitt merkið um það vaxtaokur sem tíðkast í skjóli þeirrar peningastefnu sem Alþingi hefur sett Seðlabankanum að vinna eftir. Þetta endurspeglar hversu miklu lengri tíma það tekur íslenskar fjölskyldur að eignast húsnæði sem þær búa í, ef þær á annað borð kjósa að kaupa, vegna þessarar gríðarlega háu vaxtabyrði. Enn og aftur er það á ábyrgð meiri hluta Alþingis hverju sinni að við búum við þetta vaxtaokur, sem hér er sífellt hælt af stjórnmálamönnum og sagt að sé vitnisburður um hvað við búum við mikinn sveigjanleika, hvað við búum við frábæra, sterka, stönduga, sjálfstæða íslenska mynt, sem reyndar kostar okkur dálítið mikið. Er ekki orðið tímabært að við tökum út hversu mikið þessi mynt kostar okkur í raun?

Það er orðið ljóst að við getum ekki rekið sjálfstæða peningastefnu nema með gjaldeyrishöftum. Nú búum við við innflæðishöft sem, eins og fram hefur komið í umræðunni, eru að hækka vaxtastig verulega, bæði til heimila og fyrirtækja í landinu. Þessi peningastefna hlýtur að vera komin í algjört öngstræti þegar við þurfum viðvarandi 3–4% vaxtamun, þegar fjölskyldur þurfa með viðvarandi hætti að borga heimili sitt tvisvar til þrisvar sinnum til baka samanborið við eitt sinn í hinu bannsetta Evrópusambandi sem oft er vísað til.

Ég held að það sé kominn tími til að horfast í augu við veruleikann. Það verður ekki lengra haldið með þessa peningastefnu.