148. löggjafarþing — 35. fundur,  6. mars 2018.

vantraust á dómsmálaráðherra.

344. mál
[16:33]
Horfa

Flm. (Logi Einarsson) (Sf):

Herra forseti. Ég flyt hér tillögu til þingsályktunar um vantraust á dómsmálaráðherra. Flutningsmenn eru þingmenn Samfylkingarinnar og Pírata, auk þess sem hér stendur hv. þingmenn Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, Oddný G. Harðardóttir, Helgi Hrafn Gunnarsson, Helga Vala Helgadóttir, Jón Þór Ólafsson, Guðmundur Andri Thorsson, Björn Leví Gunnarsson, Ágúst Ólafur Ágústsson, Halldóra Mogensen, Guðjón S. Brjánsson, Smári McCarthy og Albertína Friðbjörg Elíasdóttir.

Þingsályktunartillagan hljóðar svo: „Alþingi ályktar að lýsa vantrausti á dómsmálaráðherra.“

Það er síður en svo léttvægt að bera fram tillögu um vantraust á ráðherra í ríkisstjórn. Þeir eru æðstu fulltrúar framkvæmdarvaldsins og starfa með stuðningi Alþingis. Ráðherrar fara með mikilvæg mál frá degi til dags sem hafa áhrif á daglegt líf og öryggi almennings en snúast stundum um grundvallaratriði í tilveru okkar til mjög langs tíma. Ábyrgð hv. þingmanna við þessa atkvæðagreiðslu er því mjög mikil.

Farsælt samfélag byggist á trausti og þá skiptir höfuðmáli að löggjafar-, framkvæmdar- og dómsvaldið njóti þess í sem ríkustum mæli. Sú tillaga sem hér verður rædd hverfist raunar um alla þessa þrjá þræði og samspil eða kannski því miður samtvinnun þeirra á óeðlilegan hátt, þ.e. ólögmæt afskipti framkvæmdarvaldsins af dómsvaldinu og hvort löggjafarvaldið ætli að láta slíkt óátalið.

Herra forseti. Það er auðvitað alltaf alvarlegt þegar ráðherra brýtur lög við skipun starfsmanna ríkisins sem heyra undir ráðherra en óhuggulegt þegar brotið varðar skipun dómara sem vegna þrískiptingar valdsins verða að vera sjálfstæðir frá framkvæmdarvaldinu. Hér er um slíkt mál að ræða.

Hæstv. dómsmálaráðherra hefur í viðtali á RÚV fagnað umræddri tillögu því að þá fái hún kærkomið tækifæri til að ræða störf sín sem ráðherra. Gott og vel. Í störfum sínum sl. ár hefur hæstv. dómsmálaráðherra tvívegis verið dæmd í Hæstarétti fyrir embættisfærslur sínar þegar hún skipaði nýjan Landsrétt með ólögmætum hætti, framfaraskref sem margir hafa sagt að væri okkar stærsta réttarbót frá stofnun lýðveldisins.

Þessi brot hafa svo þær afleiðingar að trúverðugleiki Landsréttar er dreginn í efa. Nú þegar eru rekin tvö mál fyrir dómi vegna þess og ekki ósennilegt að fleiri muni fylgja í kjölfarið. Það getur tekið mjög langan tíma að fá niðurstöðu og möguleiki er á að mál verði ógilt. Í því ljósi verður auðvitað að hafa í huga hagsmuni og skaðabótaskyldu ríkisins en alls ekki síður þau áhrif sem það gæti haft á líf margra einstaklinga og jafnvel alls almennings. Störf ráðherra snúast nefnilega á endanum alltaf um þjónustu stjórnvalda við fólkið í landinu og í því ljósi er þetta grafalvarlegt mál.

Þessar embættisfærslur hafa verið mikið ræddar á liðnum vetri. Í þeim umræðum hefur ráðherra ítrekað farið með rangt mál. Hæstv. ráðherra hefur borið því við að hún hafi ekki getað staðið betur að málum vegna lítils tíma, að hún hafi þurft að skila tillögum sínum tveimur vikum eftir að matsnefnd um hæfi skilaði áliti sínu til hennar. Á þessi rök fellst umboðsmaður Alþingis ekki í nýlegu bréfi sínu til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis. Þar segir að þessi frestur eigi ekki við um skipun Landsréttar.

Við höfum líka frétt eftir krókaleiðum að hæstv. ráðherra hafi fengið ítrekaða ráðgjöf frá sérfræðingum innan úr stjórnsýslunni um að hún þyrfti að uppfylla rannsóknarskylduna, vanda betur til verka. Þessar mikilvægu ráðleggingar sem eru í samræmi við dóma Hæstaréttar og álit umboðsmanns hunsaði hún og sagðist sjálf vera sérfræðingur í málaflokknum. Þá var það nú meira að segja svo að tillaga þáverandi stjórnarandstöðu var einmitt sú að vísa tillögu um skipun frá og veita meiri tíma til yfirferðar málsins.

Það vakna spurningar: Af hverju þessi flumbrugangur? Hvað bjó að baki ákvörðunum hæstv. ráðherra sem umgekkst vald sitt með þessum hætti? Nú verður hver að dæma fyrir sig.

Aðalatriðið er þó að vegna ólögmætrar embættisfærslu er óvissa um heilt dómstig. Bréf umboðsmanns Alþingis gefur fullt tilefni til að ætla að allt sé komið fram er varðar embættisfærslur dómsmálaráðherra. Engin mál fyrir dómstólum snúast um stöðu dómsmálaráðherra. Þau snúast eingöngu um slæmar afleiðingar ólögmætrar embættisfærslu ráðherra. Þess vegna er dómsmálaráðherra ekki treystandi til að fara með málefni dómstólanna í landinu eða vinda ofan af þeim vandræðagangi sem dómstólar eru komnir í. Hún verður því að axla ábyrgð á þeim og það er nauðsynlegt að það birtist með skýrum hætti. Þess vegna leggja Samfylkingin og Píratar fram vantraust á hæstv. dómsmálaráðherra.

Herra forseti. Þessi atkvæðagreiðsla snýst um grundvallarmál, þ.e. á hverju við viljum byggja samfélag okkar, á lögum, gagnsæi, góðri dómgreind og siðferði eða andstæðu þessa. Hv. þingmaður Sjálfstæðisflokksins sagði í Kastljósi í gær að málið væri formstagl. Slíkar yfirlýsingar eru til vitnis um að í þingsal er enn fólk sem gefur í skyn að sá sem með einhverjum hætti kemst til valda hafi það í hendi sér hvernig hann fer með valdið. Einhver hefði jafnvel getað kallað það uppskrift að valdníðslu.

Herra forseti. Í bréfi til flokksfélaga sinna frá því í júní sl. skrifaði hæstv. forsætisráðherra ásamt hæstv. heilbrigðisráðherra, með leyfi forseta:

„Í tíð fyrri ráðherra málaflokksins var mikil áhersla á að leiða fram lagaumgjörð og inntak nýs dómstigs í sátt. Nýr ráðherra hefur nú þverbrotið það ferli, gengið fram á skjön við þann anda sem ríkti á fyrri stigum málsins. Uppnám millidómstigsins er nú algjört, á ábyrgð dómsmálaráðherrans og ríkisstjórnarinnar allrar. Enn er ekki séð fyrir endann á málalyktum þessa og gæti svo farið að Landsréttur yrði að glíma við vantraust og skort á trúverðugleika um árabil.“

Tilefni þessara orða var skipun hæstv. dómsmálaráðherra í nýjan Landsrétt. Þau voru skrifuð áður en ráðherra var tvívegis dæmd fyrir ólöglegar embættisfærslur. Það eitt gæfi jafnvel tilefni til þess að skrifa nýtt bréf og taka dýpra í árinni. Nú reynir, herra forseti, á orð hæstv. forsætisráðherra um ný vinnubrögð og aukið traust sem henni varð tíðrætt um í upphafi stjórnarsamstarfsins. Við þessa atkvæðagreiðslu gefst henni og öllum öðrum þingmönnum tækifæri til að sýna það í verki.