148. löggjafarþing — 35. fundur,  6. mars 2018.

vantraust á dómsmálaráðherra.

344. mál
[16:40]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Það er nær óþekkt í þingsögunni að borið sé upp vantraust á einstaka ráðherra. Það er tilfellið þrátt fyrir að engar sérstakar takmarkanir séu á því hvert tilefni vantrausts getur verið. Engin rökbundin nauðsyn er þannig um að uppi séu álitamál sem snúa að umgengni um lög eða reglur. Það geta allt eins verið mál sem eru pólitísks eða jafnvel persónulegs eðlis. Þrátt fyrir að engin slík mörk séu á tilefni fyrir vantrauststillögu á einstaka ráðherra, eða eftir atvikum ríkisstjórn, þrátt fyrir að mál hafi fallið ríkinu og einstaka ráðherrum í óhag fyrir dómstólum í sögunni oftar en einu sinni, hefur slík vantrauststillaga, tillaga um vantraust á einstaka ráðherra, ekki verið borin upp á Alþingi svo áratugum skiptir, nóg hafa nú verið umdeildu málin hér á þinginu í gegnum söguna.

Síðast 1954 var borin upp tillaga um vantraust á menntamálaráðherra. Ekki verður litið svo á að vantrauststillaga sem lögð var fram á Alþingi 1994 hafi verið einungis á einn ráðherra enda var hún borin upp á alla ráðherra ríkisstjórnarinnar, hvern og einn. Þótt það mál sem hér er á dagskrá verði ekki skoðað nema bara í því ljósi verður ekki annað sagt en að þeir sem að málinu standa séu á afar undarlegu ferðalagi.

Í orði kveðnu er byggt á niðurstöðu Hæstaréttar frá því fyrir þremur mánuðum, í desember 2017, um að ráðherrann hafi ekki í einu og öllu fylgt réttum málsmeðferðarreglum, að hún hafi ekki sinnt rannsóknarskyldu sinni nægjanlega, ekki gert nægan samanburð á hæfni þeirra sem hún gerði tillögu um, borið saman við þá sem dómnefnd hafði gert tillögu um. Þó er það svo að Hæstiréttur féllst ekki á kröfu um að ógilda niðurstöðu ráðherrans. Þess utan hafði Alþingi áður fengið tillögu ráðherrans hér til meðferðar og fallist á hana.

Ráðherrann hefur svo sannarlega verið tilbúin að færa rök fyrir máli sínu, bæði fyrir nefndum Alþingis, hér í þingsal einnig, og reyndar hvar sem eftir því hefur verið kallað.

Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hefur verið með málið til umfjöllunar. Þangað hefur ráðherrann mætt og svarað. Nefndin gerði tillögu um að vekja upp skoðun umboðsmanns Alþingis, en hann hefur nýlega tjáð sig um málið og telur ekki tilefni til að taka einstök atriði þessa máls til athugunar að eigin frumkvæði, eins og færð eru rök fyrir.

Virðulegur forseti. Að öllu þessu virtu situr þetta eftir: Þeir sem að þessari tillögu standa eru í leiðangri sem gengur út á eitt og aðeins eitt, að reyna að koma höggi á ríkisstjórnina. Samfylkingin varð fljótari að bregðast við hvatningu fyrrverandi leiðtoga síns, eða ætti ég að segja viðvarandi leiðtoga, Jóhönnu Sigurðardóttur, frá því um síðustu helgi. Þar var kallað eftir því að Samfylkingin beindi spjótum sínum að Sjálfstæðisflokknum. Og viti menn, í fyrsta skipti í hálfa öld kom fram vantrauststillaga á ráðherra. Jú, ráðherra úr Sjálfstæðisflokknum.

Í ljósi þeirrar langdregnu umræðu sem stjórnarandstöðuflokkarnir hafa staðið fyrir um þetta mál, sem er löngu upplýst og margskoðað, verð ég að segja að það er visst fagnaðarefni að fá hér tækifæri til að binda formlega enda á málið, fá tækifæri til að lýsa stuðningi við ráðherrann hér á Alþingi.

Þá loks verður málið komið af dagskrá og við þingmenn getum farið að einbeita okkur að þeim stóru og mikilvægu verkefnum sem fram undan eru og varða framtíðina. Og ráðherrann getur snúið sér að þeim fjölmörgu verkefnum sem á hennar könnu eru og hún er vel fallin til þess að takast á við, málum sem m.a. snúast um varnir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, að styrkja landamæravörslu og landhelgisgæslu, um framgang aðgerðaáætlunar um meðferð kynferðisbrota og almennt um eflingu löggæslunnar og allt hitt. Ráðherrann nýtur nefnilega til þessara mála og annarra sem á hennar borði eru góðs stuðnings meiri hlutans á Alþingi. Það mun koma fram með skýrum hætti strax í dag.