148. löggjafarþing — 35. fundur,  6. mars 2018.

vantraust á dómsmálaráðherra.

344. mál
[16:46]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Það sem við erum að spyrja okkur, og landsmenn ættu að spyrja sig líka og hafa verið að spyrja sig, er hvort þessi dómsmálaráðherra sé traustsins verður. Á ég að treysta þessum dómsmálaráðherra?

Þá horfum við til þess sem hefur verið í gangi. Við erum að rannsaka þetta mál. Dómstólarnir hafa kveðið upp sinn dóm, stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hefur kallað eftir gögnum frá stjórnsýslunni um ákvarðanir og verklag ráðherra og fengið þau. Umboðsmaður Alþingis hefur farið yfir gögnin og telur ekki ástæðu til skoðunar, telur að það sé að fullu upplýst hvernig ráðherra hagaði sínum málum við skipan dómara.

Þá horfum við til þess hvernig þetta byrjaði. Jú, dómnefnd er skipuð og á samkvæmt lögum að starfa á sjálfstæðan hátt við að meta hverjir eru hæfustu aðilarnir sem sækja um að fá að koma í þetta nýja dómstig sem hafði verið um árabil í undirbúningi í mikilli sátt. Og strax ákveður dómsmálaráðherra að reyna að skipta sér af því, biður um að fá fleiri valkosti fyrir sig. Þetta á að vera sjálfstæð nefnd en eftir að hafa verið dæmd fyrir að gerast brotleg við lög hvað þetta varðar ætlar hún bara einhvern veginn að skrifa upp á nýtt reglurnar varðandi þessa dómnefnd, refsa í rauninni nefndinni fyrir að hafa ekki hlýtt, ekki gert það sem dómsmálaráðherra vildi.

Númer tvö er að dómstólaráðherra fær síðan tillögur frá dómnefndinni, ekki eins og hún vildi þær, ákveður samt sem áður bara að velja þá fjóra sem hún valdi. Það er bara einn aðili, einn sérfræðingur, sem segir að þetta sé löglegt og það er dómsmálaráðherra sjálfur. Allir hinir sem er skylt samkvæmt lögum að ráðleggja ráðherra segja: Þetta er ekki löglegt ef þú gerir þetta svona. Þetta er ekki löglegt ef þú gerir þetta svona. Og á endanum segir ráðuneytisstjóri dómsmálaráðuneytisins: Þetta er ekki löglegt ef þú gerir þetta svona, ég skal hjálpa þér að gera þetta. Ég get kallað saman fólk núna og við getum klárað þetta á einum sólarhring, meira að segja innan þessa tveggja vikna frests sem ráðherra hafði.

Þetta eru svik við það fólk sem hefur það lögbundna starf að sinna þessum málum og svik við þá sem hafa verið að vinna að þessu máli alla tíð. Dómsmálaráðherra ákveður: Nei, ég ætla að gera þetta eftir mínu hyggjuviti, það er mín persónulega ákvörðun að gera tillögu um fjóra aðra inn í þetta, fjóra aðra, og við vitum að tveir þeirra eru mjög vel tengdir ráðherra.

Þessi tillaga kemur inn til Alþingis og fer til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. Lætur dómsmálaráðherra samstarfsflokka sína vita að allir aðrir en hún í ráðuneytinu og stjórnsýslunni hafi sagt að þetta væri ólöglegt ef hún gerði þetta svona? Nei, hún leyndi samstarfsflokka sína því, hún sveik þá. Þeir verða að geta treyst samstarfi sínu við ráðherra.

Hún leyndi stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd því líka, nefndina sem á að hafa eftirlit með henni ef hún ákveður að breyta út af dómnefndinni sem hún getur gert. Við eigum að hafa eftirlit með henni en hún leynir okkur þessum upplýsingum. Það eru alvarleg svik við stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis. Við verðum að fá upplýsingar til að geta tekið upplýsta ákvörðun um hvort þetta sé rétt. Það voru svik, hún leynir alla þingmenn þessum sömu upplýsingum þannig að þeir geta ekki tekið upplýsta ákvörðun um hvort það sé löglegt og rétt að gera þetta svona. Það eru svik við Alþingi, en hún fær meiri hlutann til að keyra það í gegn með því að leyna upplýsingum. Meiri hluti Alþingis samþykkir það en rétt áður en hann samþykkir það fær hún tækifæri til að fá þetta aftur í sínar hendur. Það er tillaga frá minni hlutanum, m.a. Vinstri grænum, um að við vísum þessu aftur til hennar og hún hefur heilan mánuð til að vinna málið. Gerum þetta rétt, gerum þetta vel.

Henni var hafnað með einu atkvæði, atkvæði Sigríðar Á. Andersen sem þingmanns. Svo fer þetta fyrir forsetann. Hún leggur fram bréfið vitandi að hún er eini sérfræðingurinn með löglega aðkomu að málinu sem segir að þetta sé löglegt. Allir aðrir hafa sagt henni að þetta sé ólöglegt — nema Alþingi sem hafði ekki upplýsingarnar, þ.e. meiri hluti Alþingis. Hún leggur þetta fyrir forsetann vitandi að þetta er líklega ólöglegt. Hún leggur það samt fyrir forseta Íslands. Það eru svik við forseta Íslands, það eru svik að leyna forseta Íslands upplýsingum og hann er ekki sáttur við að vera leyndur upplýsingum um mál sem hann hefur þurft að skrifa upp á, t.d. um uppreist æru. Hann sagði að svoleiðis mál yrðu ekki afgreidd framar, auðvitað ekki og réttilega ekki.

Svo eru þessir aðilar skipaðir í Landsrétt, fjórir aðilar, og nú dæmdi Hæstiréttur náttúrlega að það væri ólöglegt. Við erum með þetta nýja dómstig sem var vandað til alla tíð þangað til á lokametrunum að nýr dómsmálaráðherra, Sigríður Á. Andersen, ákveður að reyna að setja sitt fólk, þessa fjóra einstaklinga, inn í þennan dóm. Allir segja að það sé rautt ljós, ekki gera þetta, ekki gera þetta, en hún keyrir yfir og nú er hún búin að klessukeyra þennan dóm að því leytinu til að réttaróvissa verður um hann næstu árin. Það verður kært til Mannréttindadómstóls Evrópu. Þó að Hæstiréttur segi að dómararnir séu ekki vanhæfir verður þetta kært til Mannréttindadómstóls Evrópu. Það er einhver sem mun gera það. Það verður gert.

Og hvað mun hann segja? Nú hefur dómsmálaráðherra sjálfur sagt að það gæti verið að hún ætti þakkargreiða hjá þeim dómurum sem hún hefur skipað, að þeir séu í þakkarskuld við sig. Það sagði hún í Kveik, hver sem er getur séð það, það verður sönnunargagn í málinu. Þá er það ekki óvilhallur dómstóll.

Við erum með dómsmálaráðherra sem er búinn að koma á réttaróvissu í landinu með því að skemma ferli sem allir aðrir hafa unnið að faglega. Það eru svik við þá sem unnu að þessu allar götur. Það eru svik við Alþingi. Það eru svik við samstarfsflokkana, svik við stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. Það eru svik við þá sem vinna í stjórnsýslunni okkar við að reyna að gera faglega hluti þar og ráðleggja ráðherra. Það eru svik við dómnefndina, hvernig hefur verið komið fram við hana. Þessi ráðherra hefur svikið alla aðila í þessu ferli frá upphafi til enda, allt frá því að hún kom að því.

Þá spyr maður sjálfan sig: Hefur hún viðurkennt eitthvað í þessu? Nei, hún viðurkennir ekki að hún geri mistök. Það er alltaf einhverjum öðrum að kenna. Það er dómstólaráðherrann sem við erum með. Og hvað með framhaldið? Einstaklingur sem gerir svona mörg axarsköft og skemmir svona mikið út frá sér, er aldrei tilbúinn að viðurkenna og bendir alltaf á aðra, svoleiðis einstaklingur mun halda áfram að svíkja. Hún mun svíkja þessa ríkisstjórn og samstarfsflokka sína í henni fyrir mjög þröngan hóp, hennar innsta kjarna. Það er það sem við stöndum frammi fyrir.

Ég vantreysti þessum dómsmálaráðherra og ég vona að sem flestir geri það.