148. löggjafarþing — 35. fundur,  6. mars 2018.

vantraust á dómsmálaráðherra.

344. mál
[16:58]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Hæstv. forseti. Það gerist ekki á hverjum degi að á Alþingi sé lögð fram vantrauststillaga á sitjandi ráðherra. Það gerir örugglega enginn af léttum hug en í mínum huga er ein spurning ofar en margar aðrar, þessi: Eiga ráðherrar sem brjóta lög að sitja áfram í embætti? Það er kannski sú spurning sem við þurfum að svara hér í dag. Nú er það trauðla þannig að sá ráðherra sem hér er til umræðu, hæstv. dómsmálaráðherra, sé eini ráðherra Íslands sem hefur brotið lög eða fengið á sig hæstaréttardóma í embætti. Í hvert skipti sem það hefur komið fyrir undanfarandi, svo lengi sem ég man, hafa menn gripið í það sem hæstv. forsætisráðherra sagði áðan, að við eigum að læra af þessu. Ég veit ekki hvaða „við“ en við eigum að læra af þessu, segir hæstv. forsætisráðherra. Og við eigum að halda áfram að læra. Ég veit ekki hvað við eigum svo að gera og ég veit ekki heldur hver lærdómurinn á að vera.

Auðvitað eru þær afleiðingar sem orðið geta af því hvernig hæstv. dómsmálaráðherra skipaði í Landsrétt nýverið ekki komnar fram og munu ekki koma fram fyrr en eftir þó nokkurn tíma. Þegar þær eru að fullu komnar fram, þ.e. þegar hæstaréttardómur hefur gengið og ef þessi mál fara til Mannréttindadómstólsins, verður örugglega spurt hvernig atkvæðagreiðslan sem hér fer fram á eftir fór, hvernig menn greiddu hér atkvæði.

Bæði í 1. og 3. mgr. 5. gr. siðareglna ráðherra og í 1. mgr. 20. gr. laga nr. 115/2011 er kveðið á um að ráðherra skuli leita sér ráðgjafar í ráðuneyti sínu til að tryggja að störf hans séu í samræmi við lög og reglur. Það er ekki hægt að lesa annað út úr dómi Hæstaréttar á sínum tíma um nýlega skipan í Landsrétt en að þetta hafi ekki verið gert.

Þess vegna kem ég aftur að spurningunni: Eiga ráðherrar sem brjóta lög að sitja áfram í embætti?

Hugur minn er í sjálfu sér í dag hjá hæstv. forsætisráðherra sem veitir forsæti í ríkisstjórn sem hefur þann einlæga ásetning að efla traust á Alþingi, efla traust á stjórnmálum. Hún hefur skipað sérstaka nefnd til þess að efla traust á stjórnmálum og fulltrúar flokkanna hafa mætt fyrir þá nefnd og gefið skýrslu um hvað þeir telji að til þurfi að koma til þess að efla traust á stjórnmálum. En þessi sami forsætisráðherra situr uppi með tvo ráðherra, ber ábyrgð á þeim, sem báðir hafa hæstaréttardóm á bakinu, þann þriðja sem lítur út fyrir að verði vanhæfur í hverju málinu af öðru.

Hún vill efla traust á stjórnmálum, hún vill efla traust á Alþingi og efla veg þess. Traust á Alþingi í dag sá ég í blaði að mælist 20%. Ég veit ekki, herra forseti, hvort það traust mun vaxa af þeirri tillögu sem hér er til athugunar, að henni felldri. Ég efast um það.