148. löggjafarþing — 35. fundur,  6. mars 2018.

vantraust á dómsmálaráðherra.

344. mál
[17:03]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Í rökstuðningi hv. þm. Loga Einarssonar, fyrsta flutningsmanns þessarar tillögu, sagði hann að það væri síður en svo léttvægt að leggja fram vantraust á ráðherra. Nú má spyrja sig í ljósi þess að bæði sá sem hér stendur og margir sem komu að Landsréttarmálinu fyrir tæpu ári og fengu allar upplýsingar á borðið í ljósi hvers þessi vantrauststillaga er lögð hér á borðið. Allar upplýsingar lágu fyrir. (Gripið fram í: Nei.) Það er rétt að bæði héraðsdómur og Hæstiréttur voru samhljóða um að ráðherra hefði ekki rannsakað umsækjendur nægjanlega og þannig gerst brotleg við hina matskenndu rannsóknarreglu, 10. gr. stjórnsýslulaga. Sá sem hér stendur benti einmitt á það í sínu máli og taldi vafa leika á hvort nægjanlegri rannsókn rannsóknarskyldu hefði verið sinnt.

Hins vegar lýsti ég því einnig margoft við þessar umræður sl. vor að ráðherra hefði fyllilega heimild til að bregða út af tillögu hæfnisnefndar og koma með aðra tillögu til þingsins sem ráðherra og gerði. Reyndar studdum við Framsóknarmenn þá tillögu vegna þess að okkur fannst mikilvægt að tekið væri meira tillit til dómarareynslu og kynjahlutfalla. Bæði héraðsdómur og Hæstiréttur staðfestu það í sínum dómum, settu ekki út á að það hefði verið heimilt, eingöngu út á hina matskenndu reglu um rannsóknarskylduna. Staðreyndin er líka sú að tillaga ráðherra fer inn í þing og meiri hluti þingmanna samþykkir hana, þingmenn þáverandi ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar.

En af hverju er þessi tillaga borin fram hér í dag? Ég spyr. Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hefur ekki lagt það til í umfjöllun sinni. Umboðsmaður Alþingis telur enga ástæðu til frumkvæðisathugunar hvað þetta varðar en bendir á að skoða þurfi almennt stjórnsýslu án ábyrgðar, þ.e. excel-skjölin í hæfnisnefndunum, bæði hjá dómaranefndunum og hæfnisnefndum annars staðar í Stjórnarráðinu. Við Framsóknarmenn bentum einmitt á það atriði í umfjöllun okkar sl. vor, sérstaklega eftir að hafa setið marga fundi í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og hlustað á formann dómarahæfnisnefndarinnar. Þá vöknuðu mjög margar spurningar um þetta mat.

Þessi „léttvæga“ uppákoma í dag er í boði Pírata og Samfylkingarinnar, tveggja flokka af fimm í stjórnarandstöðu. Ég er sammála síðasta ræðumanni, ég er ekki viss um að þessi uppákoma auki traust á stjórnmálum eða Alþingi. (Gripið fram í.) Ég er sannfærður um að svo sé ekki og ég styð ekki þessa tillögu.