148. löggjafarþing — 35. fundur,  6. mars 2018.

vantraust á dómsmálaráðherra.

344. mál
[17:12]
Horfa

Þorgerður K. Gunnarsdóttir (V):

Herra forseti. Þingsályktunartillaga um vantraust er réttur þingmanna til að veita framkvæmdarvaldinu ákveðið aðhald og slíkan rétt á ekki að umgangast af léttúð eða neinu slíku. Þess vegna fannst mér sárt að heyra það áðan hjá ráðherrum í ríkisstjórn og fannst ekki mikill bragur yfir því að tala niður þetta veigamikla hlutverk sem þingmenn í stjórnarandstöðu og líka í stjórn hafa, að veita framkvæmdarvaldinu aðhald. Það er skýlaus réttur þeirra þingmanna sem eru flutningsmenn þessarar tillögu. Við skulum virða þann rétt.

Fyrir okkur í þingsal sem erum ekki flutningsmenn þessarar tillögu er það okkar að fara yfir málsatvik, kynna okkur öll málsgögn og taka síðan málefnalega afstöðu til þess hvort og hvenær ráðherrann þarf að axla ábyrgð vegna embættisverka sinna og/eða pólitískra ákvarðana. Ég viðurkenni alveg að þetta er þungbært af því að ég hafði séð fyrir mér, ekki síst í ljósi þess sem stendur m.a. í stjórnarsáttmálanum og þess sem við höfum öll verið að ræða um og ég efast ekki um að er sett fram af einlægni, að bæta vinnubrögð innan þings sem utan. Það gildir líka um ríkisstjórnina. Ég hefði viljað sjá hér líka umræðu um önnur viðmið, önnur vinnubrögð og að ríkisstjórnin setji þetta ekki bara á prent í ríkisstjórnarsáttmála heldur sýni líka frumkvæði í bættum vinnubrögðum.

Við viljum vanda okkur og við ætlum að taka þessa umræðu alvarlega. Ráðherra hefur talað um í málinu að hann beri alla ábyrgð, sagt það skýrt, hann hafi beitt sínu sérfræðiáliti, farið yfir gögn málsins sem ég efast ekki um og sett fram sína niðurstöðu. Á endanum er ábyrgðin þar. En hvað felst þá í slíkri ábyrgð? Að mínu mati snýst spurningin svolítið um það. Í rauninni má segja að Hæstiréttur hafi tekið þetta skýrt fram og sett mjög glögglega fram í sinni niðurstöðu. Ráðherrann fékk skýr aðvörunarorð frá sínum helstu sérfræðingum. Ráðherrann fór gegn þeim, tók sína pólitísku meðvituðu ákvörðun um þá niðurstöðu. Ráðherrann upplýsti þingið ekki. Það vita allir. Upplýsti ekki samstarfsflokka. Það er afar þungbært þegar maður er í ríkisstjórn og þess vegna skil ég viðbrögðin líka hjá hæstv. ráðherrum. Það standa allir svolítið saman. Þetta er svolítið lið. Þess vegna var sárt að ríkisstjórnin var ekki upplýst. Ég efast ekki heldur um það að hæstv. þáverandi forsætisráðherra hefði ekki hleypt málinu í gegnum ríkisstjórn ef við hefðum verið upplýst um þessa annmarka sem síðan kom í ljós að voru á málinu. Á þeim grunni var hæstv. ráðherra dæmdur. Umboðsmaður tekur undir þetta, alveg skýrlega. Þess vegna er frumkvæðisathugun ekki sett af stað af því að Hæstiréttur er búinn að tala í málinu. Það er óþarfi að umboðsmaður fari nákvæmlega yfir þessi málsatvik.

Fyrir vikið stöndum við frammi fyrir því að ríkið sé ekki bara skaðabótaskylt, líklega fyrir tugum ef ekki hundruðum milljóna, heldur er komin ákveðin réttaróvissa. Það er búið að skapa réttaróvissu alla vega til skemmri tíma, hugsanlega til lengri tíma ef málið fer til Mannréttindadómstólsins. Þetta millidómstig sem við erum búin að vera að byggja upp og við erum búin að tala um lengi og heitir nú Landsréttur — ég flutti á sínum tíma þingsályktunartillögu um millidómstig af því að það skiptir svo miklu máli að byggja upp réttarríkið í landinu, halda áfram að gera það — er gríðarlega mikilvægt tæki og ég vara við því að við í þessari umræðu tölum það niður því að þeir einstaklingar sem nú þegar gegna þar mikilvægum störfum gera það allir af miklum heilindum. Ég vil leyfa mér að fullyrða það.

En afleiðingar þessarar pólitísku ákvörðunar og embættisverka ráðherra eru alvarlegar. Þá erum við komin að þessu stóra máli: Hvað með vantraust? Hvað með afsagnir ráðherra áður en við förum yfir í vantraust? Það er ekkert endilega algengt í íslensku samfélagi. Innanríkisráðherra sagði af sér fyrir ekki löngu síðan, ekki fyrir það að hafa verið dæmd af Hæstarétti, dæmd fyrir embættisverk, heldur vegna þunga málsins og axlaði þannig ábyrgð þegar staðan var orðin mjög erfið. Það gerði líka heilbrigðisráðherra á sínum tíma hjá Alþýðuflokknum. Þegar staðan var orðin mjög erfið þá fóru menn frá og horfðust í augu við það sem við blasti, líka til að auka traust á undirstöðum samfélagsins sem er m.a. framkvæmdarvald, sem er dómsvaldið, sem er þingið. Þar öxluðu menn og konur ábyrgð.

Það hefur verið rætt um það og ég var þeirrar skoðunar á sínum tíma að ráðherrar sem hafa verið dæmdir fyrir Hæstarétti verði að íhuga stöðu sína. En við skulum líka skoða það með allri sanngirni. Ég verð að horfast í augu við það að ákveðin sanngirni er í því þegar ráðherrar eru dæmdir fyrir að hafa farið að ráðgjöf og ráðleggingum sérfræðinga og embættismanna innan Stjórnarráðsins að þeir settu fram sína ákvörðun á grunni ráðlegginga sérfróðra manna eftir að hafa farið í gegnum ferli. Á þeim grunni voru þeir dæmdir.

Ég tel svo að ráðherra hafi haft ótal tækifæri til að stíga sjálf til hliðar en hefur kosið þess í stað að sitja áfram með fulltingi ráðherra í ríkisstjórn, hæstv. forsætisráðherra, hæstv. samgönguráðherra sem ekki fyrir löngu síðan, það eru bara nokkrir mánuðir síðan, gagnrýndu þennan sama ráðherra afar harkalega, ekkert endilega mildilega eins og var farið yfir áðan heldur nokkuð harkalega fyrir þessar embættisfærslur vegna Landsréttar. Þetta var gagnrýni sem Hæstiréttur tók síðan eindregið undir og umboðsmaður líka.

Á endanum erum við enn og aftur komin að því að þetta snýst um vinnubrögðin. Þetta snýst um það hvernig við breytum þeim. Við þurfum að taka afstöðu til þessarar tillögu, þessarar snúnu tillögu. Við horfum upp á það sama gamla. Samstarfsflokkum í ríkisstjórn er stillt upp við vegg, þinginu er stillt upp við vegg þannig að ekkert breytist. Það er öllum smalað heim. Liðin eru svona og hinsegin og ekkert breytist. Það sem mér finnst sorglegt er að sjá ekki frumkvæði af hálfu ríkisstjórnar, af hálfu þeirra sem sitja í forsæti ríkisstjórnar sem segi: Breytum þessu, sýnum það í verki. Það er svo margt sem þetta mál snýst um. Þetta mál snýst fyrst og síðast um grundvallarprinsipp, grundvallaratriði í íslensku samfélagi, gegnsæi og traust á grunnstoðum samfélagsins. Það er það sem við verðum að hafa í huga þegar við greiðum atkvæði hér á eftir og það er það sem við þingmenn Viðreisnar munum hafa í huga síðar í dag í atkvæðagreiðslunni.