148. löggjafarþing — 35. fundur,  6. mars 2018.

vantraust á dómsmálaráðherra.

344. mál
[17:20]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Herra forseti. Traust er dýrmætt og áunnið. Glatist traustið þarf mikinn vilja og vinnu til að endurheimta traust að nýju. Dómsmálaráðherra er rúin trausti vegna ólögmætra embættisathafna sinna við skipan dómara í Landsrétt. Á því ber enginn ábyrgð nema hún sjálf. En í stað þess að viðurkenna brot sín, í stað þess að vinna gagngert að því að ná trausti okkar aftur, deilir hún við dómarann í eigin sök og grefur sér sífellt dýpri gröf.

Við vantreystum dómsmálaráðherra vegna þess að hún ber enga virðingu fyrir því valdi sem henni er trúað fyrir í embætti sínu. Sigríður Andersen braut lög við skipan dómara. Það staðfestir Hæstiréttur. Hún gerði það gegn ráðleggingum sérfræðinga. Ekki bara einu sinni vöruðu sérfræðingar ráðherra við, ekki tvisvar, heldur ítrekað. Hún kann ekki að fara með vald sitt, beitir því eftir eigin geðþótta og hentisemi og skellir svo skuldinni á hverja undirstöðustofnun stjórnkerfisins á fætur annarri. Venjulegur einstaklingur hefði á þeim tímapunkti einfaldlega tekið pokann sinn, enda er það skoðun mikils meiri hluta landsmanna að hæstv. dómsmálaráðherra eigi að segja af sér. Dómsmálaráðherra hefur allt frá því að hún vanrækti rannsóknarskyldu sína við skipan dómara í Landsrétt spillt trausti til embættisins, en ekki síður til allra stofnana sem voga sér að sinna hlutverki sínu. Til þess beitir hún öllum tiltækum ráðum og þvælir umræðuna út í eitt, með dyggum stuðningi samstarfsmanna sinna í Sjálfstæðisflokknum. Þar á bæ er löng hefð fyrir að beina umræðunni sífellt í átt að tæknilegum smáatriðum, formstagli, og fyrir gríðarlegri móðgunargirni þegar einhver dirfist að benda á efni og eðli ágreiningsins.

Raunar mætti segja að Sjálfstæðismenn séu í umræðuhefð sinni fastir í fornum hugsunarhætti þeirra persónugerðar Íslendinga fyrri tíma sem Halldór Laxness lýsir svo vel í Innansveitarkroniku. Með leyfi forseta:

„Því hefur verið haldið fram að Íslendingar beygi sig lítt fyrir skynsamlegum rökum, fjármunarökum varla heldur og þó enn síður fyrir rökum trúarinnar, en leysi vandræði sín með því að stunda orðhengilshátt og deila um tittlingaskít sem ekki kemur málinu við en verði skelfingu lostnir og setji hljóða hvenær sem komið er að kjarna málsins.“

Kjarni málsins er að umboðsmaður Alþingis telur málsatvik og lagaleg atriði þess máls sem liggur til grundvallar atkvæðagreiðslunni fullupplýst. Það leysir ráðherrann ekki undan ábyrgð, eins og ráðherrar hæstv. ríkisstjórnar reyna að sannfæra okkur um, heldur staðfestir hana og rennir enn frekari stoðum undir þá kröfu að ráðherra skuli segja af sér.

Það liggur fyrir að ráðherra braut lög við skipun dómara í Landsrétt. Það liggur fyrir að það gerði hún gegn allri ráðgjöf sérfræðinga og án handbærs rökstuðnings. Það liggur fyrir að tengsl eru á milli ráðherra og þeirra aðila sem ráðherra skipaði í stað annarra sem fagleg matsnefnd taldi hæfari.

Það sér almenningur og það lítur ekki vel út fyrir ráðherra enda telur meiri hluti þjóðarinnar að Sigríður Andersen eigi bara að segja af sér. Í því ljósi krefjumst við Píratar og Samfylkingin sömuleiðis að þeir þingmenn sem ætla að verja ráðherra vantrausti komi hingað upp í pontu og skýri afstöðu sína. Orðum mínum er ekki síst beint til hv. þingmanna Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, en níu af hverjum tíu þeirra sem kjósa myndu flokkinn í dag vilja ráðherra burt. Gerum betur, sögðu talsmenn hv. þingmanna fyrir kosningar.

Hvernig verja þeir þetta? Í áðurnefndri Innansveitarkroniku er einnig að finna Söguna af brauðinu dýra, af brauðinu sem Eyrúnu Jónsdóttur var falið að flytja á milli bæja. Hún villtist af leið í þoku og ráfaði um í nokkra daga. Kona sú snerti þó ekki brauðið í þessum ógöngum sínum. Þegar Guðrún var spurð hvers vegna hún hefði ekki gert það svaraði hún: Því sem manni er trúað fyrir því er manni trúað fyrir.

Dómsmálaráðherra var trúað fyrir því að setja á fót nýtt dómstig til réttarbóta fyrir almenning. Hún hefur brugðist því trausti. Þingmenn eru fulltrúar almennings og ábyrgð þeirra er mikil. Almenningur treysti þingmönnum m.a. fyrir eftirliti með framkvæmdarvaldinu og í krafti þess hlutverks greiðum við atkvæði hér í dag. Það er því í okkar höndum í þessum sal að láta hæstv. ráðherra sæta ábyrgð á gerðum sínum og setja hana af.

Herra forseti. Í atkvæðagreiðslunni hér á eftir standa allir þingmenn frammi fyrir mikilvægri ákvörðun: Við getum valið um að greiða atkvæði með hagsmunum almennings og aukið traust á því að lögin í landinu skuli jafnt yfir alla ganga, eða brugðist því trausti sem okkur er falið og greitt atkvæði með samtryggingu og sérhagsmunagæslu valdastéttarinnar í landinu.

Valdið er okkar, herra forseti, og ábyrgð okkar er mikil.