148. löggjafarþing — 35. fundur,  6. mars 2018.

vantraust á dómsmálaráðherra.

344. mál
[17:25]
Horfa

dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S):

Virðulegur forseti. Loksins kom vantrauststillagan sem stjórnarandstaðan hefur boðað mánuðum saman. Reyndar eru stjórnarandstöðuþingmennirnir sem ekki standa að þessari vantrauststillögu fleiri en flutningsmennirnir. Systurflokkarnir Píratar og Samfylkingin hafa einir látið hafa sig í það að kalla eftir vantrausti á þann ráðherra sem hér stendur, ráðherra sem fylgdi lagabókstafnum í einu og öllu við skipan dómara við hinn nýja dómstól. Lagaákvæði sem fjalla um skipan dómara við Landsrétt í fyrsta sinn eru ekki mörg en þau eru alveg skýr. Hæfnisnefnd gerir tillögur um dómaraefni til ráðherra. Ráðherra getur vikið frá þeirri tillögu hafi hann uppi málefnaleg sjónarmið sem standi til þess. Ráðherra leggur svo tillögur sínar fyrir Alþingi sem annaðhvort samþykkir eða synjar tillögunum.

Alþingi samþykkti í júní sl. tillögur mínar um 15 einstaklinga í embætti dómara við Landsrétt. Eins og menn þekkja var mikið ákall um það í þinginu að Landsréttur yrði skipaður jafnt konum sem körlum. Þetta kom fram í ræðum og skrifuðum greinum og nefndarálitum þingmanna, en einnig í samtölum mínum við forystumenn flokkanna þegar niðurstaða dómnefndar lá fyrir. Ég mat það svo sjálf að dómarareynslu hefði ekki verið gefið nægt vægi af hálfu hæfnisnefndar og því var tillaga mín frábrugðin tillögu dómnefndar að því leyti að níu reyndir héraðsdómarar bættust við í hóp þeirra sem hæfnisnefnd hafði metið sem hæfasta. Tillaga mín til Alþingis var þannig frábrugðin tillögu hæfnisnefndar til mín um fjóra einstaklinga. Þessir fjórir einstaklingar höfðu ekki aðeins verið metnir hæfir af dómnefndinni vegna landsréttarskipunarinnar, heldur voru þeir einnig metnir hæfir þegar þeir voru skipaðir sjálfir héraðsdómarar endur fyrir löngu. Við þessa breytingu jafnaðist hlutur karla og kvenna í Landsrétti. Mér segir svo hugur að aldrei áður hafi jafn mikilvæg stofnun verið sett á laggirnar hér á landi í lýðveldissögunni með jöfnum hlut beggja kynja.

Virðulegur forseti. Ég biðst forláts á því að það hafi gerst á minni vakt og án þess að ég hafi sérstaklega vísað til kynjakvóta eða kynjasjónarmiða við þessa skipan. Þetta gerðist einfaldlega vegna þess að ég sá engin málefnaleg rök fyrir því að telja sitjandi skipaða dómara með áratugadómarareynslu ekki jafn hæfa og þá 15 sem dómnefndin taldi að kæmu bara til greina.

Í desember sl. kvað Hæstiréttur upp úr um að ég hefði ekki rannsakað málið nægjanlega áður en ég gerði tillögu til Alþingis. Þar með hefði ég farið gegn 10. gr. stjórnsýslulaga sem kveður á um, eins og hv. þingmenn þekkja, að mál skuli nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því. Þetta kallast rannsóknarregla í stjórnsýslurétti. Rannsóknarregla segir ekki annað en þetta: Nægjanlega upplýst. Hvergi er neina skýringu að finna á því hvað telst nægjanlegt. Um það hefur skapast hefð og venja við tilteknar aðstæður en ekki allar og er þessi regla reyndar mjög reglulega viðfangsefni dómstóla.

Skipan 15 dómara í einu lagi er fordæmalaus og verður trúlega einsdæmi í íslenskri réttarsögu. Við þingheim vil ég segja: Ég innti af hendi viðamikla rannsókn á umsóknum umsækjenda um embætti við Landsrétt, umsögn dómnefndar, andmælum umsækjenda og vægi og stigagjöf dómnefndar og vinnubrögðum hennar almennt fyrr og nú. Ég vó sjónarmið ráðgjafa minna innan Stjórnarráðsins en einnig utan þess og öll lög og reglur sem málið varðaði og lögskýringargögn og síðast en ekki síst sjónarmið alþingismanna og formanns dómnefndar.

Ég taldi mig hafa rannsakað málið nægjanlega áður en ég tók ákvörðun um að leggja til við Alþingi tillögur um aðra umsækjendur en nefndin. Ég taldi mig hafa rannsakað málið nægjanlega og ég frábið mér algerlega allan málflutning hér innan dyra, í þessum sal, um að ég hafi af ásetningi ætlað að valda dómstólunum einhverjum skaða, að hafa ætlað að skerða tiltrú almennings á réttarkerfinu eða dómstólum með þessum hætti. Ég frábið mér slíkan málflutning algerlega. Þegar menn telja nú dóm Hæstaréttar frá því í desember vera tilefni til afsagnar minnar eða vantrausts alls Alþingis á mér er á ferðinni einhver misskilningur á þrígreiningu ríkisvaldsins.

Ráðherra hefur ekki síðasta orðið um túlkun á lagareglum þegar hann tekur sínar ákvarðanir. Þegar um matskenndar reglur er að ræða og ágreiningur er um túlkun þeirra kemur auðvitað fyrir að niðurstaða stjórnvalds sé borin undir dómstóla. Þá eru það dómstólar sem hafa lokaorðið. Þetta á ekki síst við um matskenndar reglur stjórnsýsluréttarins og jafn eðlilegt er þá að stundum dæmi dómstólar stjórnvaldi, ráðherra, sveitarfélagi eða ríkisstofnun, í óhag. Dómstólar sjálfir eru stundum ósammála. Dómum héraðsdóms er snúið við í Hæstarétti. Þá hefur okkar helstu fræðimenn og lögspekinga greint á um túlkun laga og reglna. Það er einfaldlega réttarríkið hér sem er að verki og við höfum komið okkur saman um að una niðurstöðunni.

Sú tillaga um vantraust sem við ræðum sýnist mér til marks um að hv. flutningsmenn uni ekki niðurstöðu dómstóla og vilji fá einhvers konar ábót á dómsniðurstöðu. Menn hafa reynt að kreista þessa ábót einnig út úr störfum hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. Menn hafa vonast til að geta kreist þessa ábót út hjá umboðsmanni Alþingis, án árangurs. Ég nefni það hér í nýútkomnu bréfi frá umboðsmanni Alþingis þar sem hann boðar frumkvæðisskoðun á störfum hæfnisnefndar. Þá vil ég líka nefna að nefnd sem falið er að meta hæfni dómaraefna hefur sjálf komist að þeirri niðurstöðu, skipti um skoðun algerlega frá því í sumar og kynnti það með sinni nýjustu umsögn að það væri auðvitað ekki eðlilegt að hlutlægt mat væri lagt á alla umsækjendur, hægt væri að komast að niðurstöðu með þeim hætti.

Virðulegur forseti. Fátt er svo með öllu illt að ekki boði nokkuð gott. Þessi vantrauststillaga sýnir nefnilega að valdið til að skipa dómara á að vera í höndum ráðherra en ekki hjá andlitslausri stjórnsýslunefnd. Hæfnisnefndir verða nefnilega aldrei dregnar til ábyrgðar. Ráðherra er hægt að draga til ábyrgðar, eins og flutningsmenn hér reyna nú að gera með þessum hætti.

Ég vil biðja þingheim allan um að virða mér það til vorkunnar að ég mun ekki greiða atkvæði með þessari tillögu en tek undir það sem fram kom hjá einum hv. þingmanni stjórnarandstöðunnar, að það verður í minnum haft hvernig menn greiða hér atkvæði á eftir.