148. löggjafarþing — 35. fundur,  6. mars 2018.

vantraust á dómsmálaráðherra.

344. mál
[17:43]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Frú forseti. Hér er komin fram vantrauststillaga sem flutt er af hluta stjórnarandstöðunnar. Ég mun greiða atkvæði gegn tillögunni. Hún snýst nefnilega ekki um dómsmálaráðherra eingöngu heldur í raun um ríkisstjórnina í heild. (Gripið fram í: Nei.) Ég var og er ósátt við þau embættisverk dómsmálaráðherra á síðasta ári sem eru undirrót þessarar tillögu. Það hefur ekki breyst. Hér er hins vegar verið að fjalla um tillögu um vantraust og þar gilda önnur sjónarmið.

Það er alveg ljóst að skaðinn er skeður. Þegar er búið að vinna þau embættisverk sem eru ástæða þessarar umræðu. Það var gert í síðustu ríkisstjórn landsins, fyrir síðustu kosningar. Ef vantrauststillagan verður samþykkt getur tvennt gerst; annaðhvort að ráðherrann fari og nýr dómsmálaráðherra taki við. En hvað mundi þá gerast? Breytist eitthvað? (Gripið fram í: Já.) Ætti nýi ráðherrann að skipa nýja dómara og setja hina af? Hvernig er það gert? Ljóst er að samþykkt tillögunnar leysir þess vegna engan efnislegan vanda.

Hitt sem gæti gerst væri að Sjálfstæðisflokkurinn yfirgæfi ríkisstjórnina og þar með væri hún úr sögunni. Vil ég aðra ríkisstjórn án alþingiskosninga, aðra en ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur? Mitt svar er nei. Þegar við Vinstri græn gengum til þessa ríkisstjórnarsamstarfs lá ljóst fyrir að við myndum ekki hafa neitt um ráðherraval samstarfsflokka okkar að segja fremur en þeir um okkar. Það hefur ekkert breyst efnislega frá því að ákvörðun um að ganga í þetta ríkisstjórnarsamstarf var tekin.

Hæstiréttur staðfesti efnislega minnihlutaálit stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar sem núverandi forsætisráðherra Katrín Jakobsdóttir lagði fram og skrifaði á síðasta ári. Embættisfærslur dómsmálaráðherra frá því á síðasta ári lágu því fyrir þegar farið var í þetta ríkisstjórnarsamstarf og efnislega hefur ekkert breyst. Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hefur farið ofan í saumana á málinu ásamt umboðsmanni Alþingis og sú vinna og ábendingar munu nýtast til að endurskoða stjórnsýsluna í skipun í opinber embætti. Hæfi dómara er líka til skoðunar í Hæstarétti.

Aðild okkar Vinstri grænna að þessari ríkisstjórn og stuðningur við alla ráðherra hennar byggist á þeim mörgu góðu framfaramálum sem fram koma í samstarfsyfirlýsingu samstarfsflokkanna í ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur. Ríkisstjórnin skilar mikilvægum verkum að mati okkar Vinstri grænna og er rétt að hefja kjörtímabilið þar sem krefjandi verkefni eru fram undan við að uppfylla metnaðarfulla samstarfsyfirlýsingu. Ég get bent á mikilvæg mál og vinnu sem nú þegar er hafin, t.d. í ráðuneyti heilbrigðismála og í umhverfisráðuneytinu og ég bendi líka á öfluga forystu forsætisráðherra okkar, Katrínar Jakobsdóttur, fyrir þessari ríkisstjórn.

Ég vil t.d. minna á það sem gerðist í síðustu viku þegar hæstv. forsætisráðherra stöðvaði vopnaflutningana og lýsti því yfir að Landsbankinn yrði ekki seldur, svo einhver dæmi séu tekin. Aðkoma okkar Vinstri grænna að ríkisstjórninni skiptir máli.

Þessi tillaga snýst um ríkisstjórnina (Gripið fram í: Nei.) og ég vil að hún haldi áfram með sín mikilvægu verkefni því að skaðinn er skeður varðandi þau umdeildu embættisverk sem unnin voru af dómsmálaráðherra á síðasta ári. Skoðanir mínar þar að lútandi hafa ekki breyst og er brýnt að læra af þeim mistökum. (LE: Einmitt.) (Gripið fram í: Heyr, heyr.)

Við erum öll sammála um að læra af þeim mistökum. En munum það að ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur hefur ekki komið efnislega að því máli. Ég ber fullt traust til ríkisstjórnarinnar og ráðherra og treysti því að forsætisráðherra leiði þessa ríkisstjórn áfram til góðra verka, landi og þjóð til heilla.