148. löggjafarþing — 35. fundur,  6. mars 2018.

vantraust á dómsmálaráðherra.

344. mál
[17:49]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M):

Virðulegur forseti. Ég er hálfringlaður eftir síðustu ræðu, minnir mig svolítið á ræðurnar sem voru fluttar hérna í kringum 2009 þegar þingmenn Vinstri grænna voru á móti því að sækja um aðild að Evrópusambandinu en gerðu það nú samt. Svolítið svipuð ræða. Ég er á móti því að sækja um, en ég ætla samt að sækja um. En við ætlum ekki að rifja það upp hér, það er nægur tími til þess.

Ég ætla að byrja, virðulegur forseti, á að segja að ég er ofsalega sammála því sem hæstv. ráðherra sagði í lok sinnar ræðu um að við gætum ekki látið andlitslausa stjórnsýslu um valdið. Það er hjá ráðherranum og ábyrgðin er sjálfsagt þar líka. Þess vegna er ég sammála henni um það að þegar eitthvað kemur frá svona nefnd á ráðherrann að sjálfsögðu fara yfir það og hlýtur að þurfa að skoða það því að hann ber ábyrgðina. Þá byrjar að mér sýnist vandræðagangurinn, þá byrjar klúðrið í rauninni, hvernig eftirleikurinn er. Það er mjög mikilvægt, fyrst að ráðherrar, sérstaklega forsætisráðherra, eru æstir í að læra af þessu öllu saman, mjög gott að menn læri af þessu og við þurfum þá að breyta mjög miklu. Við þurfum að breyta því hvernig menn horfa á svona andlitslausar nefndir. Ef ráðherrann á að bera ábyrgð þarf hann að hafa leyfi, völd, hafa getu til að bera ábyrgðina en hann á líka að svara fyrir ábyrgðina.

Ég margspurði í þessum ræðustól hæstv. forsætisráðherra: Hvenær þarf ráðherra víkja? Hvenær á ráðherra að víkja ef hann hefur brotið af sér í starfi? Það voru engin svör að sjálfsögðu. Hæstv. forsætisráðherra sá ekki ástæðu til þess að koma með skilgreiningar á því. Ég velti því fyrir mér hvort ráðherra eigi að víkja þegar nógu margir æpa að hann eigi að víkja, þegar nógu margir mæta hér fyrir utan húsið og segja: Þú átt að fara. Á hann þá að víkja? Er það reglan? Á ráðherra að víkja þegar hann er dæmdur á æðsta dómstigi landsins? Hvenær þá? Fyrir hvað? Skiptir það máli líka? Á hann að víkja ef hann brýtur stjórnsýslureglur? Á hann að víkja ef hann keyrir of hratt? Hvenær á að ráðherra að víkja? Ef þetta er eitthvert vafamál þá þurfum við að sjálfsögðu að fara yfir það.

Ég sagði hér fyrir nokkrum árum síðan þegar hæstv. núverandi heilbrigðisráðherra var dæmdur af Hæstarétti að ráðherrann ætti að taka pokann sinn sem umhverfisráðherra vegna þess að æðsti dómstóll landsins hafði dæmt hana. Ég er á sama stað, mér finnst hún eigi ekki að sitja sem ráðherra í dag. Ég er þar af leiðandi á því að hæstv. dómsmálaráðherra þurfi að víkja vegna þess að hún hefur fengið dóm á sig á æðsta dómstigi landsins. Meðan við höfum ekki skilgreint betur hvað þarf að gerast til að ráðherra víki í slíkum aðstæðum þá finnst mér að ráðherra eigi að víkja, það er mjög einfalt.

Ég er líka sammála þeim sem segja að það ríki mikil óvissa um framhaldið varðandi Landsrétt. Hvernig verður framhaldið með þennan rétt, þetta stofustáss sem nú er búið að koma upp í dómskerfinu og allir ætluðu að vera sammála um? Svo komumst við að því að upplýsingarnar sem við höfðum voru ekki allar á borðinu. Var þeim leynt vísvitandi? Ég held ekki. Ég held kannski að þeim hafi verið leynt óvart, að við höfum ekki fengið að vita af þessari ráðgjöf og gagnrýni innan úr ráðuneytinu vegna þess að menn gleymdu að segja okkur frá því. Ég ætla nú að vera á þeim stað, ég ætla ekki að segja að menn hafi verið vísvitandi að fela það fyrir okkur. Hefði það breytt einhverju? Jú, mögulega hefði það breytt atkvæðagreiðslunni hér á Alþingi. Ég hugsa að það hefði breytt einhverju fyrir alla vega einhverja, menn hefðu kannski spurt spurninga sem er núna verið að spyrja.

Virðulegur forseti. Ég verð þó að nefna það og ég vona að við séum ekki að horfa upp á slíkt í náinni framtíð, sem hæstv. samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra nefndi, landsdómsmálið, landsdóm. Það er nú ljóta ófétið að við skyldum gera það, eða ekki við, ég stóð ekki í því, en þeir sem gerðu það á sínum tíma og þeir sem fylgdu því fast eftir eiga að skammast sín að mínu viti. Við eigum ekki að þurfa að horfa upp á slíkt, aldrei aftur. Aldrei nokkurn tíma aftur.

Það sem við horfum fram á núna er virðing löggjafans, virðing Alþingis. Þetta er virðingin sem hæstv. forsætisráðherra myndaði ríkisstjórn út á. Einhver talaði um voðalega breiða ríkisstjórn. Hver er skírskotunin þegar kemur að breiddinni? Er það bara að sitja sem lengst, láta hvað sem er yfir sig ganga? Hæstv. forsætisráðherra ber ábyrgð á þessari ríkisstjórn. Hún hlýtur að þurfa að svara því: Hvenær eiga menn að axla ábyrgð í hennar samstarfi undir hennar stjórn? Ég spyr að því.

Ég ítreka það sem ég sagði áðan að ég er sammála hæstv. dómsmálaráðherra þegar hún segir að ráðherra þarf að taka ákvarðanir, ráðherra þarf að bera ábyrgð en ráðherra þarf þá líka að hafa tæki til þess og hann þarf að bera ábyrgðina á því sem hann ákveður.