148. löggjafarþing — 35. fundur,  6. mars 2018.

vantraust á dómsmálaráðherra.

344. mál
[17:54]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér vantrauststillögu á hæstv. dómsmálaráðherra. Fyrsti flutningsmaður málsins, hv. þm. Logi Einarsson, fór í framsögu sinni yfir rökstuðning og fleiri hv. þingmenn sem styðja þessa tillögu hafa farið yfir það á hvaða forsendum Alþingi eigi að lýsa yfir vantrausti á hæstv. ráðherra. Farið er yfir val hæstv. ráðherra á dómurum í Landsrétt þar sem Hæstiréttur taldi hæstv. ráðherra brjóta gegn stjórnsýslulögum með því að fara ekki að hæfnismati dómnefndar um skipun þeirra í Landsrétt, þeirra 15 dómara sem dómnefndin mat hæfasta.

Í stuttu máli hefði ráðherrann átt að bera saman hæfni þeirra fjögurra sem dómnefndin lagði til og þeirra sem hæstv. ráðherra ákvað að skipa í staðinn, samkvæmt þeim þáttum sem hæstv. ráðherra lagði til grundvallar. Mat Hæstiréttur að ekki lægju nægileg gögn fyrir eða engin, eins og kemur fram í dómi Hæstaréttar, um það mat hæstv. ráðherra og segir að slík málsmeðferð sé andstæð 10. gr. stjórnsýslulaga. Það sama ætti reyndar við um meðferð Alþingis á þeirri tillögu hæstv. ráðherra þar sem ekki hafi verið bætt úr þeim annmörkum á málsmeðferð hæstv. ráðherra.

Þessi skipan dómara í Landsrétt byggir á lagabreytingu er varðar skipan dómara frá 2010, þar sem vægi dómnefndar var aukið. Þrátt fyrir allt er gert ráð fyrir að hæstv. ráðherra dómsmála geti vikið frá niðurstöðu nefndarinnar og lagt nýja tillögu fyrir Alþingi til samþykktar, eins og hæstv. ráðherra Sigríður Á. Andersen gerði í þessu tilviki.

Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd tók málið til umfjöllunar á grundvelli niðurstöðu Hæstaréttar og ákvað á endanum, svo að ég fari hratt yfir sögu, að gefa umboðsmanni Alþingis færi á að taka afstöðu til þess hvort hann myndi hefja frumkvæðisathugun á málinu. Umboðsmaður svaraði því og kemur svar hans fram á vef umboðsmanns Alþingis, í bréfi frá 2. mars sl. til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, að hann telji umfjöllun dómstóla svara nægilega vangaveltum um undirbúning ákvarðanir ráðherrans í málinu.

Jafnframt er athyglisvert að umboðsmaður hyggst hefja frumkvæðisathugun og kemur það fram í samantekt um málið á bls. 15 að hefja eigi frumkvæðisathugun á áhrifum stigagjafar og því hvernig hún er metin með tilliti til reglna stjórnsýsluréttar.

Hæstv. ráðherra tók sína ákvörðun og tekur ábyrgð á henni. Hún hafði heimild til þess samkvæmt lögum. Þó að hæstv. dómsmálaráðherra hafi farið gegn 10. gr. stjórnsýslulaga, og ég geri ekki lítið úr þeirri niðurstöðu Hæstaréttar og skil vel að það sé til umræðu, gegn rannsóknarreglunni, sem mörgum þykir matskennd, þá mátti hæstv. ráðherra lögum samkvæmt koma með sína niðurstöðu.

Ber að vísa í að bæði héraðsdómur og Hæstiréttur vísuðu frá kröfu tveggja umsækjenda um ógildingu á þeirri skipan sem Alþingi samþykkti 1. júní 2017. Frá þeim tíma hefur hæstv. ráðherra náð kjöri í kosningum. Hún hefur brugðist við dómi Hæstaréttar. Hæstv. ráðherra hefur kallað eftir samráði við þingmenn. Hæstv. ráðherra hefur mætt fyrir hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd á opnum fundi, rætt málið hér margoft í þingsal og svarað spurningum — öllum spurningum.

Virðulegur forseti. Ég ítreka að ég geri ekki lítið úr í tillögunni sem slíkri. Ég geri ekki lítið úr niðurstöðu Hæstaréttar, en það eru mörg önnur atriði sem skipta máli hér sem ég hef reynt að rekja í ræðu minni og sem komið hefur fram í máli margra hv. þingmanna. Ég segi það hér að ég get ekki stutt tillöguna og styð hæstv. dómsmálaráðherra.