148. löggjafarþing — 35. fundur,  6. mars 2018.

vantraust á dómsmálaráðherra.

344. mál
[18:04]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Frú forseti. Traust og ábyrgð eru stór orð og rík að innihaldi. Traust og ábyrgð eru oft notuð í samhengi hvort við annað. Skylda er annað orð af sama meiði. Við treystum fólki til einhvers, þá nýtur það trausts okkar. Við gerum oft hluti í trausti einhvers sem fólk segir og við treystum. Það er traustsins vert. Því miður gerist það að fólk bregst trausti okkar. Það segir eitt en gerir annað. Það leynir okkur atriðum sem máli skipta. Það segist hafa farið í einu og öllu að reglum, en gerir það ekki. Andstaða trausts er vantraust. Þegar einhver bregst trausti okkar er afleiðingin vantraust. Við treystum viðkomandi ekki lengur. Það breytir öllu eðli samskiptanna. Trúnaður hefur verið rofinn.

Fólk ber ábyrgð á gjörðum sínum og á að standa á þeim reikningsskil. Það er almennur og viðtekinn sannleikur og einn af grunnþáttum samfélagssáttmála okkar. Stundum segist fólk bera fulla ábyrgð á einhverju. Þá treystum við því. Oft er það kallað að axla ábyrgð. Því miður gerist það að slíkar yfirlýsingar eru orðin tóm. Þær hafa ekkert innihald eða afleiðingar. Fólk firrir sig ábyrgðinni eða segist hafa axlað ábyrgð með einhverjum hætti sem er algjörlega marklaus. Þá er eina ráðið að draga viðkomandi til ábyrgðar með þeim ráðum sem tiltæk eru.

Skylda er svo enn eitt hugtak sem hefur innihald og merkingu. Maður á að gera skyldu sína. Manni ber skylda til þess að segja frá einhverju eða upplýsa um öll atriði. Þannig hefur maður skyldum að gegna. Því miður ber svo við að fólk bregst skyldum sínum. Þá kemur til kasta þess að íhuga traust eða vantraust, ábyrgð eða ábyrgðarleysi.

Frú forseti. Það er mér þungbært að standa í þessum ræðustóli á þessum fallega degi og ræða um þingsályktunartillögu um vantraust á hæstv. dómsmálaráðherra. Mér ber hins vegar skylda til þess. Yfirlýsing um vantraust er alvarlegt mál. Ég tek því ekki af léttúð. Ég var stuðningsmaður síðustu ríkisstjórnar þegar ákvarðanir voru teknar um skipan dómara í Landsrétt. Ég var ekki bara stuðningsmaður stjórnarinnar heldur studdi ég tillögu hæstv. dómsmálaráðherra. Ég get því ekki vikið mér undan því.

Í mínum huga snýst þetta mál í grundvallaratriðum um afar einfalda hluti. Það snýst um samskipti Alþingis og hæstv. dómsmálaráðherra. Það snýst um samskipti hæstv. dómsmálaráðherra við samstarfsflokka sína í síðustu ríkisstjórn og þingmenn þeirra. Um samskipti hæstv. dómsmálaráðherra við ráðherra og þingmenn eigin flokks get ég eðli málsins samkvæmt ekki fullyrt neitt um.

Alþingi og einstakir þingmenn eiga yfirleitt ekki annan kost en að treysta ráðherra til þess að búa mál þannig í hendur þingsins að það sé vandað og öllum lögum og reglum sé fylgt, hann hafi uppfyllt þær stjórnsýslulegu skyldur sem honum eru lagðar á herðar og upplýsi þingi um öll atriði sem haft geta þýðingu fyrir afgreiðslu málsins.

Það hefur ótvírætt verið leitt í ljós að hæstv. dómsmálaráðherra hefur við undirbúning þess máls, sem er kveikja þessarar vantrauststillögu, ekki staðið rétt að verki. Annars vegar uppfyllti hann ekki rannsóknarskyldu sína og málatilbúnað með fullnægjandi hætti. Um það hefur Hæstiréttur dæmt. Hins vegar hefur komið fram að hann kaus að upplýsa hvorki samherja sína í ríkisstjórnarsamstarfi né Alþingi, sem er sýnu alvarlegra, um að hæstv. ráðherra hefði farið þvert gegn ráðleggingum embættismannanna í þessu stóra máli.

Hér er rétt að hafa í huga að hæstv. ráðherra er sjálfur í miðju allra ákvarðana sem teknar voru um skipan dómaranna við Landsrétt. Hann staðfesti ekki eða fór að ráðum embættismanna. Nei, hann tók málin í eigin hendur þvert á ráðleggingar. Afleiðingin varð sú að ráðherra var dæmdur í Hæstarétti, einmitt fyrir þau atriði sem embættismenn vöruðu hann sérstaklega við. Hann ber því einn þá ábyrgð. Hann brást skyldum sínum.

Ráðherra kaus að upplýsa þingið ekki um að hann færi gegn ráðleggingum. Þvert á móti var hann staðfastur í því að fullyrða að hér væri allt í góðu lagi. Hann brást upplýsingaskyldu sinni gagnvart Alþingi. Hann reis ekki undir því trausti sem til hans var borið í þessu máli, í það minnsta ekki þess sem hér stendur.

Eftir stendur því að ráðherra tók ákvarðanir í þessu máli sem ekki standast þær kröfur sem gera verður til hans. Hann brást trausti. Hvorki Alþingi, dómsmálaráðuneytið né dómstólar landsins geta búið við að í ríkisstjórn Íslands sitji ráðherra sem ekki nýtur trausts. Það getur almenningur í þessu landi ekki heldur.