148. löggjafarþing — 35. fundur,  6. mars 2018.

vantraust á dómsmálaráðherra.

344. mál
[18:16]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegur forseti. Ég ætla að reyna að koma okkur aftur á réttan kjöl í þessari umræðu. Hæstiréttur mun bráðum fella dóm um hæfi dómara við Landsrétt. Gefum okkur að Hæstiréttur meti dómara Landsréttar hæfa. Þá mun þessu verða skotið til Mannréttindadómstóls Evrópu sem mun taka tvö til þrjú ár í að komast að niðurstöðu og á þeim tíma verður réttaróvissa um mál Landsréttar. Jafnvel þótt Mannréttindadómstóll Evrópu komist síðan að þeirri niðurstöðu að þeir séu allir í góðu lagi, þá verður það samt ekki fyrr en eftir tvö til þrjú ár. Það er búið að skemma fyrir þessu millidómstigi. Skaðinn er skeður og hann verður meiri. Við erum hérna, og ég fyrir mitt leyti, að fara í þetta vantraust gegn þessum ráðherra fyrir það, ekki fyrir persónu ráðherrans, og ég frábið mér slíkan málflutning. Þetta snýst um afleiðingar hegðunar ráðherrans, hvernig hann hagar sér.

Ég ætla að reyna að fara yfir nokkra punkta sem aðrir hv. þingmenn hafa nefnt. Hæstv. ráðherra Bjarni Benediktsson sagði að þetta snerist um persónu ráðherrans. Af hverju? Af hverju ættum við að vera að lýsa yfir vantrausti vegna persónu ráðherrans? Í alvöru? Höfum við ekki betri hluti að gera? Hv. formenn stjórnarflokkanna sögðu allir að umboðsmaður Alþingis ætlaði ekki að fara í frumkvæðisathuganir. Eins og það væri málinu til stuðnings. Hann bendir á að hann geri það ekki vegna þess að hann sér ekki ástæðu til að upplýsa meira. Þetta er allt komið fram. Það er ekki flókinn punktur.

Virðulegur forseti. Ég hygg að hæstv. ráðherra skilji þetta mætavel og mætti hætta að láta öðruvísi. Hæstv. ráðherra Sigurður Ingi Jóhannsson segir að uppákoman sé ekki til að auka traust á Alþingi. Ég er því miður sammála honum, ef niðurstaðan verður sú að ráðherra heldur sæti sínu, þá erum við hjartanlega sammála honum, því miður. Hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir fjallar síðan um þrjá punkta. Hún segir að tillagan fjalli um ríkisstjórnina. Ég bið hv. þingmann um að lesa tillöguna. Það er einfaldlega efnislega rangt hjá hv. þingmanni, og ég vil bara bæta því við: Margur heldur mig sig. Hv. þingmaður nefnir einnig að VG hafi ekki komið að þessu máli á sínum tíma og mér finnst áhugavert að hún nefni það. Og af hverju? Jú, vegna þess að þetta er skandall, er það ekki? Vegna þess að þingmenn vita að þetta er rangt. Það er rangt sem gerðist og það á að vera ábyrgð þeirra úr ríkisstjórninni, en hæstv. ráðherra axlar ekki þá ábyrgð. Við hljótum öll að sjá þetta. Það er bara þessi árans pólitík sem þvælist alltaf fyrir okkur þegar við ætlum að gera eitthvað rétt hérna. Hv. þingmaður spyr einnig: Eigum við ekki að læra af þessu? Jú. Hvað hefur hæstv. ráðherra lært? Hvenær hefur hæstv. ráðherra nokkurn tíma sýnt áhuga á að læra eitthvað af þessu máli? Ef við sleppum allri pólitík og spyrjum hvernig manneskju eða ráðherra við viljum hafa. Hvernig ættum við að vilja hafa dómsmálaráðherra sem lærir ekki af mistökum, sem viðurkennir ekki mistök, sem deilir við dómarann, hunsar viðvörunarorð og heldur áfram og áfram? Ráðherra sem greinilega lærir ekki neitt og telur sig, að því er virðist, yfir það hafinn.

Þetta snýst ekki bara um einhver lagatæknileg atriði. Þetta snýst um það hvort við viljum hafa hæfan dómsmálaráðherra í þessu landi eða ekki, vegna þess að þessi hæstv. dómsmálaráðherra er einfaldlega ekki hæfur til verksins.