148. löggjafarþing — 35. fundur,  6. mars 2018.

vantraust á dómsmálaráðherra.

344. mál
[18:20]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég hef hlustað á umræðuna og hlýt að taka undir með þeim sem benda á að hér nálgast þingmenn ólíkra flokka þetta mál úr mjög ólíkum áttum. Hér talaði hv. þm. Karl Gauti Hjaltason, þingmaður Flokks fólksins, um að þetta mál snerist um ríkisstjórnina, að hún hefði ekki gert nóg fyrir aldraða og öryrkja og því væri mikilvægt að styðja við þessa vantrauststillögu á hæstv. dómsmálaráðherra. Hæstv. dómsmálaráðherra var sakaður um sviksemi á sínum tíma gagnvart sínum samstarfsflokki, raunar af öðrum hv. þingmönnum, og svo var hér lýst vantrausti á hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir atvik sem varð fyrir tvennum kosningum. Það er því algerlega ljóst að hv. þingmenn nálgast málið úr öllum áttum. Það er kannski áhugavert í sjálfu sér að upplifa þessa ólíku sýn sem kemur mér ekkert á óvart eftir að hafa starfað í þinginu á þessu kjörtímabili.

Niðurstaðan sem ég dreg af þessu er sú að stjórnarandstaðan sé sammála um að þetta sé ómöguleg ríkisstjórn. Það kemur mér ekki á óvart og þau hafa ólíka sýn á það. (Gripið fram í.) Ég tek þetta til mín, hv. þingmaður. Mér finnst hins vegar merkilegt þegar því er haldið fram hér af hv. þingmönnum að ég hafi ekki áttað mig á þessu máli á sínum tíma, þegar sagt er að hæstv. forsætisráðherra hafi ekki áttað sig á málinu á sínum tíma. Ég bið hv. þingmenn, sem því halda fram, að lesa nefndarálitið sem ég mælti fyrir á sínum tíma. Það sem kom fram í minni ræðu var að ég er sammála dómi Hæstaréttar enda hafði ég bent á þetta á fyrri stigum. Ég tel hins vegar ekki að af því leiði að ráðherrann eigi að segja af sér eða að ég styðji vantraust á ráðherrann í ljósi þess sem ég fór yfir áðan, að um er að ræða matskenndar reglur sem eru rannsóknarreglur stjórnsýsluréttarins. Í ljósi þess að þau rök sem hér hafa verið færð fram um réttaróvissu duga ekki til til þess að rökstyðja vantraust á núverandi ráðherra (Gripið fram í.) og það hef ég sagt — ég ætla að leyfa mér að fá að tala því að ég held að þau auki ekki virðingu Alþingis, þessi frammíköll hv. þingmanna, sem ég er nú ekki mikið í sjálf (Gripið fram í.) — ég er nú ekki mikið í því sjálf, hvorki á þessu kjörtímabili né öðrum, hv. þingmaður.

Ég tel að sú tillaga sem hér liggur fyrir muni ekki gagnast neitt, eins og kom fram í ræðu minni, við að eyða réttaróvissu. Ég tel heldur ekki að þessi tillaga gagnist til að læra af málinu. Og hér var spurt sérstaklega: Hvað á að læra af málinu? Til að mynda endurskoðaða lagaumgjörð um skipan dómara. Það hef ég sagt og er mikilvægt. Hv. þingmönnum kann að virðast það töluvert ómark en hafi þeir lesið þá dóma sem hér um ræðir, kynnt sér dómafordæmin, held ég að þeir hljóti að verða sammála því mati.

Meira hef ég ekki að segja um þetta að sinni en ég ítreka það sem hér kom fram, að ég mun ekki styðja þessa tillögu.