148. löggjafarþing — 35. fundur,  6. mars 2018.

vantraust á dómsmálaráðherra.

344. mál
[18:23]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Hæstv. forseti. Mér finnst hafa speglast í þessari umræðu að hún er okkur öllum þungbær, hún er engum létt, og ég vona sannarlega að hv. þm. Birgir Ármannsson hafi ekki verið að vísa til þess sem hér stendur þegar hann benti á að einhverjir þingmenn væru hér í persónulegum hefndarleiðangri gegn núverandi hæstv. dómsmálaráðherra. Ég bara vona það.

Átakanlegast af öllu fannst mér að hlusta á hv. þm. Lilju Rafneyju Magnúsdóttur sem þvoði hendur sínar og VG af dómsmálaráðherra af meiri ákefð en ég hef heyrt og séð síðan Pílatus gamli þvoði hendur sínar fyrir margt löngu af öðrum atburði. Ég verð að segja að þessi málflutningur hv. þingmanns gerði mér ljóst hvað þingmönnum VG líður illa með þetta mál. Þeir voru algjörlega á móti málsmeðferð hæstv. ráðherra í fyrra „en skaðinn er skeður svo við bara klórum yfir“. Það gera kettirnir líka þar sem þeir eru staddir í sandkassa, þeir klóra yfir það sem þeir skilja eftir af því að skaðinn er skeður. Og hver á að sitja uppi með skaðann? Jú, við eigum að læra, sagði hv. þingmaður. Hæstv. forsætisráðherra endurtók það og ég spyr aftur: Hvaða „við“ og hvað eigum við að læra? Hver á að læra?

Eins og ég segi skil ég að þingmönnum VG líði illa með þetta mál. Ég skil að þeim líði illa með afstöðu sína en eins og ég sagði áðan vitum við ekki og getum ekki gert okkur grein fyrir því í dag hvaða áhrif það mun hafa hvernig Landsréttur er skipaður í dag. Við getum líklega orðið vör við það eftir þrjú ár eða svo og þá er skaðinn vissulega skeður en hann verður ekkert léttbærari fyrir það. Hann verður mjög þungbær og það er satt að segja algjörlega óþolandi ef dómskerfið á Íslandi verður ekki hafið yfir vafa næstu þrjú ár. Ég get ekki hugsað þá hugsun til enda.

Þess vegna hlýtur maður að spyrja: Hvað þarf til til þess að íslenskur ráðherra segi af sér? Ég spurði hæstv. dómsmálaráðherra þessarar spurningar á nefndarfundi um daginn og eftir nokkurt japl sagði hún: Ef hann gerist brotlegur við hegningarlög. Ég hugsaði með mér: Allt í lagi, eigum við þá að sleppa skattalögum, umferðarlögum, jafnréttislögum sem einhver ráðherra kallaði barn síns tíma einu sinni og forsætisráðherra nokkur braut? Eigum við þá bara að líta á lagasetninguna í heild og lagasafn Íslands eins og hlaðborð og ef ráðherra brýtur bara á réttum stað á hlaðborðinu er allt í lagi með hann en ef hann brýtur á öðrum stað á hann að víkja? Ég get ekki fallist á þennan málflutning, því miður. Næsta ræða