148. löggjafarþing — 35. fundur,  6. mars 2018.

vantraust á dómsmálaráðherra.

344. mál
[18:29]
Horfa

Þorgerður K. Gunnarsdóttir (V):

Herra forseti. Þessi umræða er búin að leiða margt í ljós. Ég verð satt best að segja að viðurkenna að ég bjóst ekki við því. Í fyrsta lagi verð ég að segja að mér finnst afar ógeðfellt að hlusta á í rauninni hreinar og beinar hótanir að mínu mati af hálfu framkvæmdarvaldsins héðan úr pontu. Mér fannst það vera þannig í garð löggjafarvaldsins, þessa réttar okkar til að setja fram þessa tillögu (Gripið fram í.) og ræða málefnalega um þá tillögu sem liggur fyrir. Mér hugnast það ekki.

Það er í rauninni búið að snúa hlutunum á hvolf. Þegar hæstv. dómsmálaráðherra er byrjuð að skýla sér á bak við jafnréttislög og kynjahlutföll þá er margt orðið skrýtið í kýrhausnum. En það er alveg rétt sem hæstv. samgönguráðherra segir: Við í Viðreisn settum fram skýra tillögu um það, sem hefur margoft komið fram, að dómsmálaráðherra myndi við ákvörðun sína taka tillit til kynjasjónarmiða. En við vorum ekki að segja henni að brjóta lög. Hún átti bara einfaldlega að vinna heimavinnuna sína hvað þetta varðar.

Það sem er svo hættulegt í þessu er að við erum síðan ekki upplýst. Það verður hæstv. samgönguráðherra, sem ber ábyrgð á ýmsu í gegnum tíðina hér í þessum þingsal, að hlusta á. Við vorum ekki upplýst, ekki ríkisstjórn, löggjafarvaldið var ekki upplýst sem er auðvitað enn þá erfiðara og verra.

Það er einfalt að mínu mati það sem hefur komið hérna fram. Þetta er skýrt. Ráðherra fór ekki eftir ráðleggingum. Umboðsmaður segir það líka. Fyrir þá sem hafa ekki lesið það þá er það skýrt. Umboðsmaður segir: Ráðherra hlustaði ekki á ráðleggingar, fór ekki eftir ráðleggingum.

En það sem undrar mig hér eftir þessa umræðu, m.a. af hálfu hæstv. dómsmálaráðherra, er að það kemur fram í áliti umboðsmanns Alþingis að í svari hæstv. ráðherra hafi hann ekki leitað eftir ráðgjöf utan Stjórnarráðsins. Segir skýrt hér. En hvað sagði ráðherrann áðan? Að hæstv. ráðherra hefði leitað eftir ráðgjöf innan sem utan ráðuneytisins? Það stangast strax á annars vegar álit og bréf ráðherra til umboðsmanns Alþingis og síðan það sem er sagt hér í þessum stóli.

Ég kalla eftir því, enn og aftur, að farið verði yfir þetta verklag og vinnubrögð verði vönduð. Þetta snýst, eins og ég gat um áðan, um þessi grundvallarprinsipp í íslenskri stjórnsýslu, umgjörð löggjafarvaldsins, framkvæmd ráðherra, að það ríki gegnsæi og traust og trúverðugleiki á grunnstoðum íslensks samfélags. Þetta mál snertir einmitt framkvæmdarvaldið, löggjafarvaldið og dómsvaldið þannig að við verðum að vanda okkur þegar kemur að þessu. En þessi umræða hefur að mínu mati skýrt málið verulega. Afstaða okkar í Viðreisn liggur líka fyrir. Við munum segja já við vantrausti hér á eftir.