148. löggjafarþing — 35. fundur,  6. mars 2018.

vantraust á dómsmálaráðherra.

344. mál
[18:34]
Horfa

Halldóra Mogensen (P) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Virðingin fyrir embættinu er engin. Hæstv. dómsmálaráðherra lagði á síðasta ári upp í þá vegferð að skipta út dómurum sem henni þóknuðust ekki fyrir dómara sem henni leið betur með. Hún skipti út mönnum á borð við Ástráð Haraldsson og Jóhannes Rúnar Jóhannesson fyrir aðra sem voru pólitískt þóknanlegir. Tölum bara hreint út um þetta. Er þetta ekki bara þannig að pólitískar skoðanir Ástráðs voru ráðherra ekki þóknanlegar og það gat ekki fengið að standa? Ráðherra hunsaði því alla ráðgjöf, keyrði áfram veginn sjálf og henti ráðgjöfunum út á ferð. Ég á þetta, ég má þetta er stef ráðherra og á þessari vegferð eru bæði aðalljósin farin, framrúðan brotin, bremsurnar slitnar og allt í botni í efsta gír. Viðvörunarskiltin eru löngu horfin úr baksýnisspeglinum, ráðherra er á háhraða að keyra yfir brennandi brú og hún er með íslenska dómskerfið bundið við farþegasætið.

Forseti. Er þetta ekki komið gott?