148. löggjafarþing — 35. fundur,  6. mars 2018.

vantraust á dómsmálaráðherra.

344. mál
[18:35]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Hæstv. ráðherra Sigríður Andersen hefur ítrekað sýnt að hún er ekki traustsins verð og verður því að víkja. Við fórnum ekki trausti almennings á kerfið allt vegna persónulegs metnaðar ráðherra til að ríghalda í stólinn. Metnaður einstakra stjórnmálaflokka til stjórnarsetu er langsamlega minni hagsmunir en þeir að við getum öll réttilega borið traust hvert til annars. Þess vegna segja ráðherrar af sér eftir slíka framkomu sem við höfum verið að ræða hér til þess að persónulegt vantraust á þeim smitist ekki yfir á alla. Það er að axla ábyrgð. Um það greiðum við atkvæði núna, um siðað samfélag þar sem alþingismenn gæta hagsmuna almennings eða samfélag sérhagsmunagæslu og samtryggingar.