148. löggjafarþing — 35. fundur,  6. mars 2018.

vantraust á dómsmálaráðherra.

344. mál
[18:36]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Ég held að það sé full ástæða til að mótmæla þeim ummælum sem hafa komið hér fram að ómálefnaleg sjónarmið hafi búið að baki tillögu hæstv. dómsmálaráðherra síðasta vor. Það hefur komið skýrt fram og ekki verið hægt að hrekja það með neinum hætti að ástæðan fyrir tillögu dómsmálaráðherra og þeirri breytingu sem hún gerði frá tillögu dómnefndar byggði á sjónarmiðum um dómarareynslu, sem er ótvíræð þegar málin eru skoðuð út frá þeim gögnum sem liggja fyrir.

Ég vildi hins vegar nota þetta tækifæri til að skora á hv. þingmenn að taka afstöðu eftir sinni bestu sannfæringu og ekki eftir flokkslínum. Ég held að það sé mikilvægt vegna þess að í þessu máli hefur dómsmálaráðherra fært góð rök fyrir máli sínu. Dómsmálaráðherra hefur lagt spilin á borðið og verið tilbúin til viðræðna við þingið hvenær sem er og hvar sem er um þessi efni. Ég held að við getum tekið afstöðu á þessum forsendum. Við eigum ekki að líta á þetta sem leiki í einhverri pólitískri refskák heldur að taka afstöðu til (Forseti hringir.) tillögunnar út frá ráðherranum og embættisfærslunni(Forseti hringir.) þar sem hún hefur gert skýra og góða og glögga grein fyrir sinni afstöðu og rökstutt vel.