148. löggjafarþing — 35. fundur,  6. mars 2018.

vantraust á dómsmálaráðherra.

344. mál
[18:37]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Mér finnst glatað að þurfa að fara í þessa atkvæðagreiðslu. Ráðherra með sómakennd væri búinn að segja af sér fyrir löngu síðan í öllum samfélögum þar sem ábyrgð í pólitík er eitthvað annað en slæmt djók eins og það er hér á Íslandi, því miður. Það var boðinn meiri tími, það var sýndur vilji til að gera þetta rétt. Hæstv. ráðherra og hæstv. ríkisstjórn á þeim tíma var boðin leið til að gera þetta rétt. Því var hafnað. Það vildi enginn kljúfa Alþingi í herðar niður vegna Landsréttar eða skipun dómara í Landsrétt. Það vildi það enginn. Það hefði verið hægt að afstýra þessu ef það væri bara smá sómakennd og ábyrgðartilfinning í íslenskum stjórnmálum, sem því miður er ekki tilfellið.

En að ráðherranum sem hér um ræðir. Viljum við ráðherra sem hunsar viðvörunarorð sérfræðinga við skipun nýs dómstigs, svolítið stórt mál? Viljum við ráðherra sem hafnar lausnum frá minni hlutanum til að gera hlutina rétt? Viljum við ráðherra sem er slétt sama þótt Alþingi sé klofið í herðar niður yfir skipun nýs dómstigs, getur ekki viðurkennt mistök, heldur áfram að deila við dómarann, Hæstarétt sjálfan, firrir sig ávallt ábyrgð en segist samt axla hana,(Forseti hringir.) ætlar engu að breyta í eigin fari? Er þeim ráðherra treystandi til að taka málefnalegar ákvarðanir? Nei. Axla svona ráðherrar ábyrgð? Nei. (Forseti hringir.) Lærir þessi ráðherra af reynslu? Nei. Hæstv. ráðherra er ekki hæfur. (Forseti hringir.) Það eitt og sér er nógu góð ástæða til að segja já við þessari tillögu í dag.