148. löggjafarþing — 35. fundur,  6. mars 2018.

vantraust á dómsmálaráðherra.

344. mál
[18:41]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Þetta hefur verið athyglisverð umræða hér í dag. Það hafa komið fram mörg ólík sjónarmið um það hvers vegna ætti að samþykkja tillöguna eða ekki. Hjá þeim sem vilja samþykkja tillöguna er það allt frá því að segja að falli dómur ráðherra í óhag eigi vantraust ávallt að vera undir yfir í það að menn hafi verið blekktir. Það er reyndar furðulegasti málflutningurinn af öllu því sem ég hef heyrt í dag, að hér hafi stjórnarliðar og þingmenn Viðreisnar á síðasta kjörtímabili verið blekktir eða gögnum haldið frá þeim. Það lá m.a.s. fyrir nefndarálit samhljóma þeim sérfræðingum sem menn telja að hafi verið haldið frá umræðunni hér á þinginu. Þess vegna er það með miklum ólíkindum að sama fólkið og studdi tillögu ráðherrans, hafandi heyrt öll sjónarmiðin sem lágu niðurstöðu Hæstaréttar til grundvallar hér í þingsal í nefndarálitum, komi nú upp og þykist ætla að styðja tillögu um vantraust á sama ráðherra. Það er með mestu ólíkindum. Það er eiginlega lágpunktur í þessari umræðu.