148. löggjafarþing — 35. fundur,  6. mars 2018.

vantraust á dómsmálaráðherra.

344. mál
[18:44]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Það er öllum augljóst fyrir utan þingmenn stjórnarliðsins að dómsmálaráðherra er rúin trausti. 72% af þjóðinni vilja hana úr embætti sem er sögulega há tala. Ráðherrann hefur brotið lög að mati Hæstaréttar. Ráðherrann hefur skapað tugmilljónaskaðabótakröfu sem skattgreiðendur þurfa að greiða úr eigin vasa vegna ásetningsbrots ráðherrans. Ráðherrann hefur í raun stefnt réttaröryggi þúsunda Íslendinga í hættu í ljósi þess að dómar til tveggja eða þriggja ára geta verið ómerktir af alþjóðadómstól.

Þessi ráðherra starfar í skjóli Katrínar Jakobsdóttur og þingmanna Vinstri grænna fyrst og fremst. Það er dapurlegt. Þið eruð að verja mjög vondan málstað og þið vitið það. Um 92% af kjósendum Vinstri grænna vita það einnig og vilja að ráðherrann axli ábyrgð og fari. Rétt í þessu voruð þið að missa ungliðahreyfinguna ykkar í þessu máli þar sem segir, herra forseti:

Virkilega eru örlög Vinstri grænna orðin dapurleg í þessum sal.